Alþjóðlegur vináttuleikur í Fellabæ

QM1T8445Í gær fór fram alþjóðlegur vináttuleikur á gervigrasvellinum í Fellabæ, en þar tók þriðji flokkur Hattar á móti liði NSÍ frá Runavík í Færeyjum, sem skipað er 16-17 ára gömlum strákum. Færeysku strákarnir hafa verið í æfingabúðum á Akureyri undanfarna viku, en fara nú heim með Norrænu í dag.

Þjálfari NSÍ er Jens Martin Knudsen, en hann er íslenskum knattspyrnuáhugamönnum að góðu kunnur. Jens spilaði með gullaldarliði Leifturs frá Ólafsfirði og var stór þáttur í velgengni Ólafsfirðinga í efstu deild á sínum tíma.

„Þessi ferð er búin að vera frábær. Við spiluðum einn leik og æfðum í 5-6 daga á Akureyri. Svo æfðum með Hetti í gær og spiluðum þennan leik núna. Á morgun förum við síðan heim,“ sagði Jens í samtali við Austurfrétt í gær.

„Það voru 15-18 stig á Akureyri allan tímann og þurrt líka. Þetta er bara búið að vera frábært og líka að koma hingað til Egilsstaða. Bæjarstjórinn sagði við okkur nokkur orð og svona, sem var gaman.“

Fljótsdalshérað og Runavík eru vinabæir og hefur töluverður samgangur verið á milli ungmenna í sveitarfélögunum á liðnum árum. „Ég held að þessir strákar sem spiluðu með Hetti hafi verið hjá okkur í Færeyjum fyrir tveimur eða þremur árum síðan, svo strákarnir þekkjast pínu í gegnum fótboltann,“ sagði Jens.

Færeyska liðið var gríðarlega öflugt, vel spilandi og líkamlega sterkt og þeir gjörsamlega völtuðu yfir lið heimamanna, sem þurftu að sætta sig við 10-1 ósigur.

„Við erum sennilega með besta liðið í Færeyjum og með sex eða sjö landsliðsleikara í þessum árgangi. En þessir strákar hjá Hetti gáfust ekkert upp, héldu áfram allan tímann og ég fékk allt það sem ég vildi fá út úr leiknum,“ sagði Jens Martin Knudsen áður en hann hélt af stað í pizzaveislu á Egilsstöðum með liði sínu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.