Sumarhátíð UÍA: Margar nýjungar í dagskránni

sprettur sporlangiSumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunnar fer fram á Egilsstöðum um helgina. Dagskrá hátíðarinnar í ár er óvenju fjölbreytt en meðal nýrra keppnisgreina eru púttmót eldri borgara, ljóðaupplestrarkeppni, CrossFit, frísbígolf, götukörfubolti, ringó og bogfimi. Þá verður að sjálfsögðu keppt í sundi og frjálsum íþróttum.

Austurfrétt kíkti á Hildi Bergsdóttur framkvæmdastýru UÍA og Sprett Sporlanga, þar sem þau voru að leggja lokahönd á undirbúning þessarar miklu íþróttahátíðar. „Við stefnum á óvenju fjölbreytta sumarhátíð í ár,“ segir Hildur og Sprettur kinkar kolli henni til sammælis.

„Það sem er nýtt í dagskránni er til dæmis eldri borgara dagskrá sem við hefjum hátíðina á á föstudaginn. Þá verðum við með púttmót í Pósthúsgarðinum og þar ætlum við að vera með harmonikkuleik, kaffi, kruðerí og góða stemmningu.

Síðan ætlum við að skunda í sundleikfimi sem er opin fyrir alla aldurshópa og þangað geta eldri borgararnir farið og náð sér niður eftir spennuna í púttmótinu. Sundleikfimin er líka hluti af upphitun fyrir sundmót Eskju sem hefst síðar um daginn. Krakkarnir mæta, skella sér í sundleikfimi og fara síðan að keppa.“ Að lokinni sundkeppninni verður svo sundlaugarpartý og þangað eru allir velkomnir.

Ýmislegt annað er þó í gangi á föstudagskvöldinu. Það verður borðtennismót í Nýung, en þar hafa húsmæður og unglingspiltar att grimmilega kappi síðustu ár og gaman verður að sjá hver hefur vinninginn að þessu sinni.

Á föstudaginn verður einnig ljóðaupplestrarkeppni í Sláturhúsinu og þar er á ferð ákveðin upphitun fyrir Unglingalandsmótið, en upplestur er keppnisgrein þar og keppendur UÍA í upplestri hafa átt góðu gengi að fagna á undanförnum árum að sögn Hildar. „Þarna viljum við mjög gjarnan sjá eldra fólk, krakkarnir eru orðnir mjög þjálfaðir í upplestri úr skólanum en þessi viðburður er öllum opinn sem vilja koma að keppa eða einfaldlega hlusta á falleg ljóð og skemmtilegan upplestur.“

Fjörið heldur áfram á laugardeginum
Eskjumótið í sundi heldur áfram á laugardag og á Vilhjálmsvelli hefst Nettó-mótið í frjálsíþróttum, sem er alltaf gríðarlega vel sótt. Einnig verður Arion-mótið í CrossFit, fyrsta CrossFit keppnin á Austurlandi, haldið og þurfa þeir sem ekki hafa prófað CrossFit áður ekki að örvænta, þar sem íþróttin verður kynnt fyrir seinni þraut dagsins og sú þraut verður mjög aðgengileg þannig að allir geti tekið þátt.

„Við verðum einnig með aðra nýjung sem er Bólholts-Streetball körfuboltaleikar. Þar eru við með flotta unglingalandsliðsstráka í körfubolta sem ætla að vera með körfuboltaþrautir og spil úti á velli,“ segir Hildur.

Alcoa-Fjarðaál býður í grill í Tjarnargarðinum að lokinni keppni í frjálsum og þegar allir hafa borðað nægju sína hefst vígslumót á nýjum frisbígolfvelli sem rís núna í Tjarnargarðinum. „Þetta verður svona alvöru byrjendamót og ég á von á því að flestir verði þarna að kasta sín fyrstu köst. Þetta er vonandi íþrótt sem er komin til að vera hérna á svæðinu,“ segir Hildur.

Um kvöldið verður síðan haldin kynning á annarri nýrri keppnisgrein sem ber nafnið ringó. Ringókeppnin fer fram á strandblaksvellinum í Bjarnadal og íþróttin er mjög einföld, það þarf bara að geta kastað og gripið til að taka þátt.

Fjölbreytt keppni á sunnudag
Á sunnudag heldur frjálsíþróttamótið áfram á Vilhjálmsvelli en einnig verður bocciamót og bogfimimót á svæðinu. „Bocciamótið hefur gjarnan verið mjög fjölmennt og skemmtilegt og þar hafa mæst mjög ólíkir samfélagshópar, ef svo má segja. Við höfum verið með lið frá Framsóknarmönnum, fötluðum, bæjarstarfsmönnum og eldri borgurum og allskonar. Krökkunum hefur líka þótt þetta spennandi og oft hafa slæðst með krakkar úr frjálsíþróttakeppninni og foreldrar þeirra,“ segir Hildur.

Bogfimimótið verður með svipuðu fyrirkomulagi og aðrar nýjar keppnisgreinar, fyrst verður kynning og síðan verður haldið mót sem hentar byrjendum í greininni.

Vilja ná til sem flestra
Hildur segir markmiðið vera að mótið nái til sem flestra. „Við erum að reyna að höfða til fólks sem er ekki endilega að æfa eitthvað sérstakt sport, heldur hefur gaman af því að vera úti og hitta fólk og þar koma greinar eins og frisbígolfið, ringóið, bocciað, ljóðaupplesturinn og bogfimin sterkar inn.“

Veðurspáin fyrir helgina gerir ráð fyrir smá vætu og engum sérstökum hlýindum en Hildur segir að hún og Sprettur leggi áherslu á þau stjórni ekki veðrinu. Þau geti þó klætt það af sér og mæti í lopasokkunum og ullarpeysunum með sólskinsbros á vör og vonast til að aðrir geri slíkt hið sama.

Skráningin í sundmótið og frjálsíþróttakeppnina er opin fram á miðvikudagskvöld, en í smærri keppnirnar fer skráning fram á staðnum. Skráningargjaldið er 2000 krónur, óháð fjölda greina sem viðkomandi tekur þátt í.

„Við vonumst til að fá góðan hóp af fólki til okkar um helgina. Þessi hátíð byggist öll á því að við eigum góða sjálfboðaliða og svona hátíð er ekki möguleg nema fyrir tilstilli þeirra. Við höfum notið góðs stuðnings frá fólki sem er tilbúið að hjálpa okkur og eins frá styrktaraðilum okkar. Það eru allir tilbúnir að leggjast á eitt við að búa til góða hátíð fyrir okkur Austfirðinga og gesti og gangandi,“ segir Hildur að lokum.

Mynd: Sprettur Sporlangi er tilbúinn í hvað sem er um helgina, enda vel klæddur í lopapeysu.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.