Með skrefamælinn úr vinnunni á Smáþjóðaleikunum: Dómararnir settu ekkert út á hann

gsse blak isl lux kk 0016 webMatthías Haraldsson, landsliðsmaður í blaki og starfsmaður Alcoa Fjarðaáls, tekur um þessar mundir þátt í hreyfiátaki Alcoa á heimsvísu sem felst í að mæla hve mikið starfsmenn hreyfa sig. Matthías spilaði með skrefamæli fyrirtækisins á Smáþjóðaleikunum í síðustu viku.

„Ég spurði engan að því hvort ég mætti vera með hann í leiknum. Ég vissi að það mætti gagnvart reglum Alcoa og dómararnir settu ekkert út á hann,“ sagði Matthías í samtali við Austurfrétt eftir leikana.

Matthías segist reyndar bara hafa borið mælinn í fyrsta leiknum gegn Lúxemborg en hann tók á þar sem úrslit réðust ekki fyrr en í oddahrinu. Landsliðið spilaði tvo leiki til viðbótar og segist Matthías hafa áætlað skrefafjöldann í þeim út frá fyrsta leiknum. Hann bar hann að auki á æfingum.

„Þess vegna vissi ég að það væri ekkert mál að spila með hann. Ég fékk 28.000 skref út úr fimm hrinu leik, æfingu og gönguferðum yfir daginn en það var algengt að þetta væru 20.000 skref á dag.“

Mælirinn er tilkominn vegna alþjóðahreyfiátaksins Global Corporate Challange (GCC) sem Alcoa tekur þátt í ásamt fleiri fyrirtækjum á heimsvísu. Starfsmenn mynda sjö manna lið og hjá Fjarðaáli er 21 lið skráð til leiks. Hver starfsmaður fær tvo skrefamæla og markmiðið er að stíga minnst 10 þúsund skref á dag.

„Sumir gera meira en aðrir eiga fullt í fangi með að ná viðmiðinu. Kyrrsetulífstíll þar sem keyrt er í vinnuna og setið við tölvuna skilar um 3000 skrefum á dag.

Fjarðaál fékk viðurkenningu fyrir að hafa hreyft sig mest fyrirtækja í keppninni í fyrra svo við eigum titil að verja. Annars eru skráð til leiks lið frá Rússlandi og Ástralíu sem stefna á að vinna liðakeppnina þar sem hver þátttakandi virðist hlaupa maraþon eða meira á dag.“

Matthías var ánægður með árangur íslenska liðsins á Smáþjóðaleikunum en það hlaut silfrið eftir að hafa tapað illa fyrir Mónakó en unnið San Marínó örugglega í lokaleiknum.

„Við spiluðum tvo góða leiki en einn arfaslakan. Ég er enn pínu svekktur með að hafa tapað fyrir Lúxemborg og sá leikur sat í okkur gegn Mónakó. Við vissum að við þyrftum að vinna San Marínó 3-0 og það gekk eftir svo það var góð endurkoma eftir dapran leik.

Við stefndum á verðlaunapall fyrir mótið þannig að heilt yfir voru þetta skemmtilegir leikar.“

Þetta voru þriðju Smáþjóðaleikarnir sem Matthías keppir á auk þess sem hann þjálfaði íslenska kvennalandsliðið á leikunum 2013.

„Ég fór fyrst til Liechtenstein árið 1999 og þá fengum við bronsverðlaun sem voru fyrstu verðlaun karlaliðsins. Það eru því nokkur ár á milli verðlaunanna.“
gsse blak isl lux kk 0022 web
gsse blak isl lux kk 0018 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.