Knattspyrna: Höttur fór með Pepsi-deildarlið Víkings í framlengingu

fotbolti huginn hottur mai15 0022 webHattarmenn eru úr leik í Borgunarbikarnum eftir 2-0 tap gegn Víkingi. Staðan var 0-0 að loknum venjulegum leiktíma, en í framlengingunni reyndust Víkingar sterkari og skoruðu tvö mörk.

Leikurinn þótti afar bragðdaufur. Hattarmenn lágu þétt til baka og náðu að halda úrvalsdeildarliðinu í skefjum. Víkingar reyndu mikið af háum boltum inn á teiginn sem stórir og stæðilegir miðverðir Hattar áttu ekki í vandræðum með.

Samkvæmt atvikalýsingu fótbolta.net átti miðvörðurinn Óttar Steinn Magnússon ein burðugustu sóknartilþrif Hattar eftir um 25 mínútna leik. Þá vann hann boltann í eigin vítateig, geystist upp allan völlinn en tapaði boltanum svo rétt utan vítateigs Víkinga.

Víkingar sóttu án afláts í leiknum, en náðu ekki að finna leið framhjá vörn Hattar og þau skot sem komu á mark Hattar varði Sigurður Hrannar Björnsson vel.

Vendipunktur varð á 87. mínútu leiksins. Þá var Aroni Gauta Magnússyni leikmanni Hattar vikið af velli með beint rautt spjald fyrir glæfralega tæklingu.

Hattarmenn náðu að halda hreinu í venjulegum leiktíma, en ljóst var að framlengingin yrði liðinu erfið manni færri.

Það kom svo á daginn, leikmenn Víkinga skoruðu fyrsta markið á 97. mínútu eftir mistök í vörn Hattar. Þá mistókst Jovan Kujundzic að hreinsa og framherji Víkinga stakk sér inn fyrir hann og lagði boltann framhjá Sigurði í markinu.

Á 101. mínútu átti Högni Helgason gott skot að marki Víkinga fyrir utan teig og var það fyrsta alvöru skot Hattarmanna í leiknum.
Víkingar bættu svo við öðru marki sínu á 111. mínútu. Þá komst leikmaður þeirra einn í gegn og lék á Sigurð áður en hann lagði boltann í markið.

Hattarmenn komust ekki nálægt því að jafna leikinn, en geta þó verið ánægðir með frammistöðu sína gegn sterku liði Víkings. Þjálfari Víkings, Ólafur Þórðarson, hrósaði Hattarmönnum fyrir baráttu og þéttan varnarleik í viðtali eftir leik, en að sama skapi var hann mjög ósáttur með hvað sínir menn voru hugmyndasnauðir í sóknarleiknum.

Það er því ljóst að Fjarðabyggð verður eina austfirska liðið í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Borgunarbikarsins á næstu dögum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.