Knattspyrna: Huginn og Leiknir á góðri siglingu - Myndband af frábærri aukaspyrnu Marko

fotbolti huginn hottur mai15 0049 webNóg var um að vera í boltanum um helgina. Austfirsku liðin voru á faraldsfæti og áttu misjöfnu gengi að fagna. Fjarðabyggð tapaði 2-0 gegn Þór á Akureyri og Höttur fékk 4-0 skell gegn ÍR í Breiðholti.

Leiknir og Huginn eru hinsvegar áfram á sigurbraut í 2. deildinni. Leiknismenn sigruðu KF 1-2 í Fjallabyggð með mörkum frá Vigni Daníel Lúðvíkssyni og Ferran Garcia, en sigurmark Leiknis kom mjög seint í uppbótartíma. Þá vann Huginn þægilegan 3-1 sigur á Dalvík/Reyni á Fellavelli í gær og eru á toppi 2. deildar ásamt Leikni og ÍR, með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.

Leikur Hugins og Dalvíkur/Reynis var eign Huginsmanna nánast allan tímann. Þeir fengu nokkur góð færi í upphafi leiks en náðu ekki að brjóta ísinn fyrr en á 18. mínútu þegar Miguel Gudiel Garcia skoraði beint úr hornspyrnu. Boltinn sveif í fögrum boga yfir alla í markteignum og endaði í innanverðu hliðarnetinu fjær. Markvörður gestanna átti vægast sagt ekki sinn besta dag og virtist misreikna þennan bolta illa. Skemmtilegt mark engu að síður.

Fljótlega varð ljóst að getumunurinn á liðunum væri töluverður. Huginsmenn fengu mikið svæði til að vinna með á miðjunni og sóknir Dalvíkur/Reynis voru ekki burðugar. Huginsmenn unnu boltann ítrekað ofarlega á vellinum en náðu þó ekki að skapa sér mikið af opnum færum, enda voru gestirnir lengst af með tvær fjögurra manna línur við sinn eigin vítateig.

Huginsmenn náðu þó að bæta við marki fyrir hlé og aftur var það eftir hornspyrnu. Þá náði Pétur Óskarsson að stinga sér framfyrir markvörð gestanna og stanga boltann í netið af stuttu færi. Hornspyrnan var þó ekkert sérstök, boltinn kom í mittishæð inn á nærstöng, og í raun var það með ólíkindum að tveir leikmenn gestana á nærstönginni skyldu ekki ná að bægja hættunni frá.

Seinni hálfleikur byrjaði mjög rólega. Huginsmenn stjórnuðu leiknum en voru alls ekkert að gera sig líklega til að bæta við marki. Dalvíkingar hresstust örlítið, smá værukærð kom yfir Huginsliðið og það endaði með því að gestirnir náðu að minnka muninn á 69. mínútu með góðu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf.

Þetta mark kveikti aðeins í Huginsmönnum á ný og skömmu seinna, eða á 74. mínútu, skoraði Marko Nicolic frábært aukaspyrnumark og jók muninn í 3-1 fyrir Huginn. Eftir þetta mark var lítið að gerast, en bæði lið fengu þó færi til að skora. Á síðustu mínútu venjulegs leiktíma fengu gestirnir vítaspyrnu, en Jón Kolbeinn Guðjónsson markvörður Hugins varði slaka spyrnuna vel, eins og sjá má hér að neðan.
Sigur Hugins var öruggur allan tímann og það hefði gefið kolranga mynd af leiknum ef að gestirnir hefðu náð að minnka muninn í 3-2. Marko Nicolic var sennilega besti maður vallarins, en einnig voru Fernando Calleja og Miguel Gudiel mjög sprækir.

Kvennaboltinn farinn af stað

Keppni er hafin í 1. deild kvenna, en þar leika Fjarðabyggð, Einherji og Höttur saman í C-riðli.

Einherji hefur leikið tvo leiki, þær fengu 11-0 skell gegn Völsungi í fyrstu umferð en náðu svo 1-1 jafntefli við Tindastól á föstudag, þar sem Karen Ósk Svansdóttir skoraði mark Einherja.

Fjarðabyggð hefur leikið einn leik og tapaði honum 3-0 á útivelli gegn Völsungi.

Höttur hefur leikið tvo leiki og tapað báðum. Þær töpuðu 4-1 gegn Sindra í fyrstu umferð og í dag léku þær við Tindastól á Fellavelli. Hattarstúlkur komust 2-0 yfir í fyrri hálfleik með mörkum frá Jasmine Trundle og Brynhildi Brá Gunnlaugsdóttur, en í síðari hálfleik skoruðu Tindastólsstelpur þrjú mörk og unnu, 2-3.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.