Blak karla: Leikurinn snérist þegar „Þróttur, Þróttur" glumdi í húsinu - Myndir

blak throttur ka kk 14032015 0005 webKarlalið Þróttar í blaki tryggði sér þriðja sæti Mizuno-deildarinnar í blaki með sigri á KA í oddahrinu á laugardag. KA-menn misstu frá sér nánast unninn leik þegar áhorfendur í Neskaupstað tóku við sér.

Þróttur vann fyrstu hrinuna 25-18 en KA þá næstu 22-25 og þá þriðju 20-25.

Þróttur var með yfirhöndina framan af fjórðu hrinu en forskotið var naumt. Jafnt var 9-9 en síðan tók KA rispu og skoraði fjögur stig í röð. Liðið hélt síðan þeirri forustu um stund.

Hávörn Þróttar hélt nokkuð vel gegn öllum nema Piotr Kempisty. Vandamálið var að hann gat skorað nánast að vild því Þróttarar réðu nánast ekkert við feikiföst smöss hans.

Eins einkennilegt það er þá gróf kvennaliðið undan þeim. Leikur kvennaliðanna átti að hefjast að loknum karlaleiknum og þegar KA-stelpur komu aftur í salinn eftir að hafa skipt um föt byrjuðu þær að hvetja strákana með að kalla „KA, KA".

Það kveikti í stuðningsmönnum Þróttar sem til þessa höfðu setið hljóðir. Þeir voru mun fleiri og þar af leiðandi mun háværari. Það kveikti í Þróttarliðinu en dró úr KA þar sem uppgjafir liðsins fóru að klikka.

Þróttur jafnaði loks í 22-22 en KA hafði enn frumkvæðið og gat tryggt sér sigurinn þegar staðan var 23-24. Þróttur skoraði hins vegar síðustu þrjú stigin í hrinunni, þar af þau tvö síðustu eftir að hávörnin hafði varið smöss Piotrs.

Í oddahrinunni var allur vindur úr Akureyringum. Uppgjafirnar fóru ýmist í netið eða út af og móttakan var skelfileg. Þróttur vann hana því auðveldlega 15-6.

„Salurinn var frábær í dag og leikurinn snérist þegar áhorfendur tóku undir. Það voru ungir strákar hjá þeim í uppgjöf og maður fann að þeir voru á taugum þegar „Þróttur, Þróttur," glumdi í húsinu," sagði Hlöðver Hlöðversson, þjálfari Þróttar.

„Okkur tókst strax í fyrstu hrinu að blokka nokkra bolta þannig að Piotr var eini sóknarmaðurinn þeirra sem gerði eitthvað af viti allan tíman. Hann er frábær sóknarmaður og það er eiginlega bónus ef það næst að blokka hann. Það náðist loksins í lokin."

Þróttur hefur nú lokið leik í deildakeppninni og ljóst að liðið endar í þriðja sæti sem þýðir að það mætir Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmótsins.

„Við fáum uppáhalds andstæðinga okkar í Stjörnunni og ætlum okkur að mæta vel stemmdir til leiks. Við mættum þeim líka í undanúrslitum í fyrra og unnum þá fyrsta leikinn á útivelli. Í vetur unnum við útileikinn en töpuðum í hörkuleik heima svo þetta verður gríðarlega spennandi."

Þróttarliðið fær hins vegar langt frí þar sem úrslitakeppnin hefst ekki fyrr en eftir páska. Hlöðver vonast til að tíminn nýtist meðal annars fyrir Matthías Haraldsson til að ná sér af meiðslum en hann spilaði ekki um helgina.

„Það var erfitt að vera án hans en það var ánægjulegt að sjá aðrir stigu upp þannig að liðið getur spilað þótt mikilvægan mann vanti. Við höfum liðsheildina fram yfir mörg önnur lið."
blak throttur ka kk 14032015 0011 webblak throttur ka kk 14032015 0013 webblak throttur ka kk 14032015 0019 webblak throttur ka kk 14032015 0021 webblak throttur ka kk 14032015 0033 webblak throttur ka kk 14032015 0038 webblak throttur ka kk 14032015 0053 webblak throttur ka kk 14032015 0067 webblak throttur ka kk 14032015 0078 webblak throttur ka kk 14032015 0084 webblak throttur ka kk 14032015 0097 webblak throttur ka kk 14032015 0099 webblak throttur ka kk 14032015 0114 webblak throttur ka kk 14032015 0117 webblak throttur ka kk 14032015 0120 web
blak throttur ka kk 14032015 0009 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.