Brettadeildin skilin frá Skíðafélagi Fjarðabyggðar: Teljum félögin sterkari í sundur en saman

oddsskard skidiMeirihluti stjórnar Skíðafélags Fjarðabyggðar (SFF) ákvað á stjórnarfundi á mánudag að skipta félaginu upp og skilja brettadeild þess frá því. Foreldrar brettaiðkenda hafa gagnrýnt ákvörðunina en formaður félagsins segir starfsemina ólíka og telur að félögin verði sterkari sitt í hvoru lagi.

„Þessar tvær greinar eiga lítið annað sameiginlegt en að vera báðar stundaðar að vetri til og æfa á skíðasvæði. Það eru ekki sömu þjálfarar og ekki sömu mótin önnur en Andrésar Andarleikarnir," segir Eðvald Garðarsson, formaður SFF.

„Þetta er svipað og að vera með handbolta og fótbolta undir sömu stjórninni. Við teljum að félögin verði sterkari í sundur heldur saman."

Rætt hefur verið um aðskilnaðinn í haust en það var þriggja manna meirihluti stjórnarinnar, skipaður fulltrúum frá alpagreinunum, sem lagði fram tillöguna og samþykkti hana. Tveggja manna minnihluti frá brettadeildinni lagðist gegn breytingunni og gekk í kjölfarið af fundi.

Hjá félaginu æfðu síðasta vetur 65 krakkar í skíðadeildinni en 17 í brettadeildinni sem starfað hefur í tvo vetur. Foreldrar brettaiðkenda hafa bæði gagnrýnt hvernig staðið var að ákvörðuninni sem og tímasetninguna þar sem skíðavertíðin er að hefjast.

Eðvald segist ekki þeirrar skoðunar að málið þurfi að leggja fyrir aðalfund þar sem brettadeildin hafi verið tekin inn á stjórnarfundi á sínum tíma.

Hann hafnar því að meirihlutinn sé að vinna gegn framgangi brettaíþróttarinnar með ákvörðuninni. Hann viti hins vegar að brettafólkið sé „ekki alveg sammála. Það er ekki okkar meining að ýta neinum út eða vera með vesen. Við viljum alls ekki leggja niður brettaiðkunina. Við erum bara sannfærðir um að þessi deildirnar báðar verður sterkari þegar uppi verður staðið."

Í gærkvöldi var haldinn stofnfundur nýs brettafélags í Fjarðabyggð þar sem Birgir Örn Tómasson, sem gekk úr stjórn SFF fyrr í vikunni, var kjörinn formaður. Hann segist hafa vitað að rætt yrði um mögulegan aðskilnað á fundinum á mánudag en þó ekki endilega tillöguna „eins og hún kom fram".

Birgir Örn segir að brettaiðkendur hafi verið með byr í seglin síðustu vetur. „Ég vona að þessir síðustu atburðir hafi engin áhrif þar á. Við þurfum áfram að hafa samstarf og það eru verk sem þarf að vinna."

Brettadeildin fékk nýverið styrk frá Fjarðabyggð upp á 2,5 milljónir króna sem deilist niður á næstu fimm ár til kaupa á búnaði sem koma á upp í Oddsskarði.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.