Yfir þrjátíu listamenn með verk á Rúllandi snjóbolta

Margt af fremsta myndlistarfólki þjóðarinnar á verk á alþjóðlegu myndlistarsýningunni Rúllandi snjóbolta sem opnuð verður fjórða sumarið í röð í Bræðslunni á Djúpavogi á morgun. Dæmi eru um að þeir vinni sérstök verk fyrir sýninguna.

„Sýningin stækkar á milli ára, ef eitthvað er, þannig að listamennirnir leggja til stærri listaverk. Margir þeirra hafa komið á staðinn til að setja þau upp og það er meira um að þeir geri sérstök verk fyrir sýninguna með hliðsjón af sýningarrýminu eða lagi þau að því heldur en þeir sendi bara verkin.“

Þetta segir Þór Vigfússon, sem er sýningarstjóri við hlið Sigurðar Guðmundssonar. Alls á 31 listamaður verk á sýningunni, Kínverjar, Hollendingar og Íslendingar.

Rúllandi snjóbolti er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center, www.ceac99.org) í Xiamen, Kína. CEAC er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var af Ineke Guðmundsson og Sigurði. Eitt af markmiðum CEAC er að stuðla að menningarlegum samskiptum milli Kína og Vesturlanda.

Meðal listamanna eru nokkur af stærstu nöfnunum í íslenskri myndlist en auk Sigurðar sjálfs má nefna Ólaf Elíasson, Ragnar Kjartansson og Egill Sæbjörnsson, sem átti verk Íslands á Feneyjatvíæringnum í vor.

Þór segir Sigurð eiga heiðurinn af því að stærstu nöfnin tengi sig við Djúpavog. „Það má þakka fyrir dugnaði Sigurðar og áhuga hans til að gera vel. Menn eru tilbúnir að leggja ýmislegt á sig og gera vel fyrir litla peninga.“

Þetta er fjórða árið í röð sem sýningin er sett upp. Yfir 3500 gestir sóttu sýninguna í fyrra. Þór segir hana draga að sér áhugasama gesti.

„Hún kemur staðnum inn í ferðaleiðir þeirra sem koma við hérna en við erum ekki að hugsa um túrisma heldur góða myndlist og trúboð hennar. Heimamenn sækja líka alltaf betur og betur í sýninguna.“

Sýningin stendur til 20. ágúst. Eftirtalin eiga verk á sýningunni: Árni Ingólfsson / Árni Páll Jóhannsson / Arnout Mik / Dagrún Aðalsteinsdóttir / Egill Sæbjörnsson / Gjörningaklúbburinn / Guðlaug Mía Eyþórsdóttir / Guido van der Werve / Haraldur Jónsson / Helgi Þórsson / Hrafnkell Sigurðsson / Hreinn Friðfinnsson / Kan Xiuan / Kristján Guðmundsson / Magnús Logi Kristinsson / Margrét Blöndal / Marlene Dumas / Meiya Lin / Mercedes Azpilicueta / Ólafur Elíasson / Pauline Curnier-Jardin / Ragnar Kjartansson / Sara Björnsdóttir / Sigurður Guðjónsson / Sigurður Guðmundsson / Sirra Sigrún Sigurðardóttir / Stevens Vaughn / Tumi Magnússon / Þór Vigfússon / Wei Na / Yang Jian

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.