Völva Austurfréttar: 2013 verður ár uppljóstrana leyndardóma, glæpa og spillingar

volvumynd_web.jpg
„Árið 2013 verður ár uppljóstrana leyndardóma, glæpa og spillingar. Núverandi ríkisstjórn fær yfir sig hatur og fordóma vegna þöggunar og dugleysis í leiðréttingu fjármála og skattpíningar,“ segir Völva Austurfréttar í spá sinni fyrir árið sem er nýgengið í garð. Austurfrétt birtir fyrsta hluta hennar í dag.

Það verður hávaði og læti í stjórnmálunum, þjóðin er hætt að trúa á pólitík og kosningaþátttaka verður dræm. Niðurstöður úr Alþingiskosningum verða ruglingslegar. Ekki verður auðhlaupið að því að mynda ríkisstjórn og erfitt að sjá niðurstöðu úr því ferli. Sjálfstæðisflokkurinn reynir mikið til að mynda stjórn. Flokkur Guðmundar Steingrímssona þvælist mikið inn í það. 

Svo mikil sundrung ríkir að Völvan vill sleppa að tala um hverjir verða í næstu stjórn, sem allt eins gæti orðið utanþingsstjórn. Allir flokkar taka þátt í viðræðum sem seint ætlar að ljúka.
 
Nýir flokkar koma fram með nýjar áherslur en fá ekki það fylgi sem þarf til að hafa áhrif í þjóðfélaginu. Nýtt fólk í gömlu flokkunum dugar ekki til að fólk trúi þeirra loforðum. Mismunun lífskjara í þjóðfélaginu veldur vandræðum og vantrú í pólitík.

Hanna Birna tekur við af Bjarna Ben.

Bjarni Benediktsson virðist hætta og líklega fara til útlanda. Hanna Birna tekur við formennsku í Sjálfstæðisflokki með brestum og braki og reynir að berja saman ríkisstjórn. Flokkurinn mun klofna í tvennt vegna áhrifa hennar. 

Annars vegar verða auðmenn en hins vegar hugsjónamenn. Líklega lafir þetta saman af hagsmunaástæðum. Hugsjónahelmingurinn mun njóta hylli og hafa góð áhrif á líf fólksins í landinu. Sjálfstæðisflokkur reynir að vinna sig í áliti með því að laga heilbrigðisþjónustu sem víðast um landið, auka atvinnu og verðmætasköpun til útflutnings. Vinstri grænir vilja vera með þeim flokki í stjórn og láta allt snúast um efnahagslega sjálfbærni landsins, með aukinni framleiðslu á kjöti og grænmeti til útflutnings. 

Hreyfingin verður annars sögð verður sagður flokkur svikinna loforða og Steingrímur J. Sigfússon hugleiðir að hætta í pólitík. Völvunni sýnist hann kominn á hnén vegna svikinna kosningaloforða. Ögmundur Jónasson heldur sinni virðingu og Jón Bjarnason þykir áfram trúverðugur, en hann er orðinn þreyttur á streðinu. Tvímenningarnir virðast þeir einu sem sloppið hafa við skaddað mannorð í ólgusjó stjórnmálanna.

Samfylkingin landráðaflokkur

Árni Páll Árnason mun verma formannssæti Samfylkingarinnar. Velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson nýtur ekki alltaf trausts í starfi. Honum verður líkt við hest á góðum gangi, sem víxlar þegar verst gegnir.

Jóhanna Sigurðardóttir hættir opinberum afskiptum af pólitík. Hún er búin með sig útaf ESB makkinu og verður helst minnst fyrir landráðastefnu, sem þjóðin verður þakklát fyrir að ekki tókst að klára. 

Samfylkingin verður stimpluð sem landráðaflokkur fyrir aðildarásækni sinnar í ESB. Stefnan skaðar flokkinn því meir sem lengra líður því meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga þar inn. Niðurstaðan verður að Samfylkingin fær lítið af atkvæðum.

Völvunni sýnist aðildarviðræðum verði hætt og ekkert minnst á það meir. Pólitíkin er ekki á réttri leið með því að flýja þangað undan yfirráðum annarra þjóða. Ísland er í skuldafeni og margar þjóðir vilja taka það upp í skuld. 

Aðildarviðræðum við ESB hætt

Eins og áður hafa Bandaríkin síðasta orðið og í skjóli þeirra mun Ísland áfram geta leikið frjálsa þjóð. Það mun koma á óvart hvað vel gengur að greiða upp skuldir og losna frá gráðugum þjóðum, sem vilja yfirtaka landið. 

Auðlindir okkar eru í mikilli hættu vegna ásælni annarra þjóða. Það er landráðalykt af Evrópusamandsviðræðum og lagabreytingum sem stendur til að gera. Kemur þá ekki að gagni að segja „Nei“ í kosningum um aðild að ESB ef búið er að breyta lögum sem opna öðrum löndum greiða leið að nýtingu auðlinda Íslands. Það sleppur þó fyrir horn vegna ríkisstjórnarskipta. 

Niðurstaða kemur loksins í Icesave-málinu og kemur mjög á óvart eftir allt fjaðrafokið.

Ný stjórnarskrá verður látin bíða og líklega verður á endanum tveimur til þremur atriðum bætt í gömlu stjórnarskrána og stjórnarskrármálið látið kyrrt liggja um langan tíma.

Þjóðin heimtar ábyrga stjórnmálamenn

Fráfarandi ríkisstjórn fær ekki góð eftirmæli og mun sú vantrú á pólitík sem þau eftirmæli skapa, endast lengi. Þjóðin vill ábyrga stjórnmálamenn og persónukjör, þannig að svíki þeir loforð sem þeir voru kosnir útá, verði þeir að víkja. 

Þjóðinni var gróflega misboðiðið með því að sakfella Geir Haarde einan vegna hrunsins en ekki alla ríkisstjórnina. Þeir sem sluppu við að axla ábyrgð verða aldrei litnir réttu auga og Alþingi missti traust sinnar þjóðar, sem ekki verður endurheimt næstu árin, kannski aldrei.

Þjóðin þykist illa göbbuð af sviknum loforðum þessarar ríkisstjórnar og dugleysi við að finna og færa heim stolið fé úr skattaskjólum. Eva Joly var stoppuð af því sumir þjófar njóta verndar.

Hátekjuskattur tímaspursmál

Efnahagsstjórnun Íslands líkist helst geðveikum manni með ofsakláða, sem ekki vill fara til læknis og fá að heyra hvað er að og því síður taka lyf sem mundu lækna þetta óþolandi ástand. Völvan segist því miður sjá þetta svona en segir enn fremur að eitthvað gott gerist þó í efnahagsmálum fyrir jól.

Það líður að þeim tíma að Íslendingar fara að þjóðnýta bankana, en fyrst þarf að koma snöru um háls auðmanna með hátekjuskatti. Það gengur ekki hljóðalaust og verður þjóðin í uppnámi í heilt ár áður en hreinsun hefst fyrir alvöru og uppbygging á verðmætasköpun.

Lækkun skatta á almenning og hátekjuskattur á hina ríku, er það sem koma skal. Sú ríkisstjórn sem lætur þetta ógert mun ekki sitja lengi, vegna þess að almenningur í landinu sættir sig ekki við þessa mismunun lengur. Sjálfstæðismenn í nýrri ríkisstjórn neyðast því til að taka eitthvað á þessu misrétti ásamt bankasukkinu, ef þeir vilja vera við völd.

Skattpínd þjóð getur ekki borgað skuldir auðmanna

„Atvinnulaus þjóð, án verðmætasköpunar á sér ekki lífs von. Þar að auki er bætt við innfluttu fólki sem ríkið framfleytir,“ segir Völvan. Atvinnulaus, skattpínd þjóð getur ekki borgað skuldir auðmanna. Hætt er á að reynt verði að innheimta erlendar skuldir með eignaupptöku auðlinda.  

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gerir ekkert nema skattleggja fólk. Launamisrétti blómstrar og bankarnir eru tímasprengja. Á árinu mun þessi Matador-leikur hætta og reynt verður að koma á hátekjuskatti.

Mikil reiði er í þjóðfélaginu, vegna þess að stolið fé hefur ekki skilað sér. Bankarnir leika fólk grátt og engin lög eru sett á þær stofnanir, en þjóðin er skattpínd. Þetta verður samt eitthvað lagað seinna.

Fjármálahneyksli Ríkisendurskoðunar verður áfall fyrir þjóðina, engu hægt að treysta, hvernig er þá allt hitt? Fyrirtæki safna skuldum og verða gjaldþrota, þjóðin spyr: Til hvers er Fjármálaeftirlitið, hver ber ábyrgð á slíkri óreiðu, á svo þjóðin að borga?

Þöggun mætt með ofbeldisfullum mótmælum

Íslendingar flýja til annarra landa og vinna þar. Útlendingar koma hingað í staðinn, það stefnir í fjölþjóðasamfélag Halldórs Ásgrímssonar á Íslandi. Útlendingar munu síðan hrökklast flestir í burtu héðan, því félagslega verða þeir útundan og síður teknir í vinnu. Íslendingar koma aftur heim þegar atvinna fer að aukast á næstu árum.

Það kemur að því að þöggun í þessu þjóðfélagi verður mætt með ofbeldisfullum mótmælum sem skilja eftir sár í þjóðarsálinni. Peningamálin verða metin stærsti glæpurinn.

Forsetinn þarf að gæta orða sinna um þjóðfélagsmálin, til þess að halda virðingu embættisins.

Ekki þýðir að dulkóða leyndarmál

Þegar skýrslan fræga átti að koma út, þurfti að dulkóða sífellt fleiri leyndarmál. Þrisvar sinnum sagði Jóhanna Sigurðardóttir að ekki væri hægt að brjótast þar inn. „Þar sem enginn veit um vandamálin eru þau hættulegust, þá getur enginn varast skaðann sem þau valda,  segir Völvan. „Uppreisn gegn óréttlæti,“, verður hrópað á torgum og hvað með leyndarmál sem voru dulkóðuð þrisvar áður en skýrslan kom út?

Völvunni sýnist að það náist enginn árangur í fjármálum, fyrr en stolið fé í skattaskjólum erlendis verður fært hingað heim og loftbólpeningar í bönkum afskrifaðir. Það þýðir ekki að dulkóða leyndarmál þrisvar, þjóðin finnur fyrir þeim.

Þolinmæði og þrautseigju þarf til að byggja efnahag Íslands upp að nýju en það tekst vel ef rétt er á málum haldið.  

Það vantar alla lífsgleði í þetta þjóðfélag, þjóðin er áhyggjufull og þunglynd vegna öryggisleysis í fjármálum, heilbrigðismálum og ábyrgðarleysis þeirra sem ráða kreppunni.
 
Það tekur minnst tvö ár að sjá breytingu til batnaðar þótt byrjað væri að laga eitthvað til strax.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.