Völva Austurfréttar 2013: Hvar hafði völvan rétt fyrir sér í fyrra?

volvumynd_web.jpg

Fyrsti hluti völvuspár Austurfréttar fyrir árið 2013 birtist hjá okkur á morgun. Því er rétt að rifja upp það sem rættist í spádómi völvunnar í fyrra – og nokkra hluti sem rættust alls, alls ekki.

 

„Völvunni sýnist næsti biskup verða kona,“ skrifaði völvan í janúar í fyrra. Það var hárrétt því Agnes M. Sigurðardóttir tók við embættinu í sumar af Karli Sigurbjörnssyni.

Völvan spáði rétt þegar hún sagði að Ólafur Ragnar Grímsson vildi að þjóðin skoraði á hann að vera áfram og að hann yrði endurkjörinn. Eftir undirskriftarsöfnun bauð hann sig fram á ný og sigraði örugglega í kosningunum.

Henni skjátlaðist þegar hún spáði því að ríkisstjórnin myndi springa og sú sem tæki við væri skipuð af forsetanum. Hún kæmi skikkan á fjármálakerfið. Spá um kosningar rættist ekki.

Völvan sagði að reynt yrði að komast hjá því að yfirheyra Geir Haarde. Lögð var fram tillaga um að hætt yrði við Landsdómsmálið á Alþingi en hún var felld.

Vel gekk í utanríkismálum. Völvan spáði því að Andreas Breivik fengi lífstíðardóm eftir að hafa verið úrskurðaður heill á geði og að Barack Obama yrði endurkjörinn forseti Bandríkjanna.

Völvan spáði því að Jóhanna Sigurðardóttir myndi hætta til að skaða ekki Samfylkinguna. Í haust tilkynnti Jóhanna að hún ætlaði ekki að bjóða sig fram í næstu þingkosningum. 

Völvan spáði því einnig að Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson, Þór Saari og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir myndu öll hætta í stjórnmálum auk þess sem Jón Gnarr fengi nóg af borgarstjóraembættinu. Af þessum hefur aðeins Þorgerður Katrín tilkynnt að hún muni hætta.

Völvan bjóst við Icesave-dómi Íslendingum í hag. Hann er ófallinn. Þá hélt hún því einnig fram að Evrópusambandsviðræðum yrði hætt skyndilega en þær eru enn í gangi.

Því var spáð að flugfélag færi á hausinn og Pálmi í Fons yrði krafinn um mikla fjármuni. Rétt er að flugfélag hans, Iceland Express, var keypt af samkeppnisaðilanum Wow Air eftir sumarið.

Í völvuspánni var bent á að veðrakerfi væru að breytast þannig að hiti væri jafnari allt árið. Það virðist rétt hjá henni. Hún spáði köldu vori á Austur- og Norðausturlandi sem rættist. Hún spáði meiri úrkomu en áður en úrkoma var yfir meðallagi á landinu árið 2012. Hún spáði kyrru og sólríku hausti en væntanlega minnast þess flestir fyrir hversu snemma snjórinn kom.

Völvan spáði því að engin ný stóriðja kæmi til landsins og að fiskveiðifrumvarp Jóns Bjarnasonar næði ekki fram að ganga óbreytt.

Völvan bjóst ekki við nýjum samgöngubótum á Austurlandi en þó hyllir nú undir ný Norðfjarðargöng. Hún spáði deilum um Sparisjóð Norðfjarðar. Rétt áður en spáin birtist var hætt við sölu hans en ákveðið að loka útibúinu á Reyðarfirði. Völvan reiknaði með uppbyggingu í heilsugæslu í tengslum við flugvöllinn á Egilsstöðum. Ekkert bólað á henni enn.

Völvan sagði að léttara yrði yfir Íslendingum þegar árið 2013 gengi í garð þegar það versta virtist afstaðið í fjármálum. Að hluta til er þetta rétt, mælingar gefa til kynna að íslenskur efnahagur stefni í rétta átt og erlendir miðlar flytja fréttir af því hvað Íslendingar hafi gert rétt í kjölfar hrunsins. Af því hefðu ýmsir aðrir mátt læra.

Völvunni skjátlaðist hins vegar hrapallega í spá sinni um Kötlugos sem átti að hafa í för með sér miklar hörmungar. Blessunarlega bólaði ekkert á því á árinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.