Völva Austurfréttar 2013: Hlaup í Markarfljóti fyllir Landeyjahöfn

volvumynd_web.jpg
Veðurfar á Jörðinni verður sífellt öfgakenndara því veðrakerfi heimsins hafa breyst. Völva Austurfréttar spáir náttúruhamförum í heiminum á þessi ár, meðal annars óvæntu hlaupi í Markarfljóti sem fylli Landeyjahöfn í öðrum hluta spár sinnar fyrir árið 2013.

Veðurfar:

Veðurfar kemur sífellt á óvart, snöggar veðurbreytingar valda þessu. Veðurkerfi eru að breytast frá því hefðbundna og þetta ár skapar óvissu.

Óveður kemur nálægt áramótum og aftur í febrúar. Mikill snjór á Vesturlandi, Norður og Norðausturlandi en gaddur og hálka fer seint af Austur- og Suðausturlandi, en það verður sólríkt vor en kalt.

Sumarið verður hlýtt, þegar það loksins kemur, en nokkuð vætusamt. Sumstaðar á landinu búa menn við of mikla þurrka og steikjandi sól.

Veðurfar verður sífellt öfgakenndara á Jörðinni. Veðurkerfi hafa færst til svo veðursæld, sem áður var meiri á einum stað en öðrum, er ekki lengur þar. Á öðrum svæðum hlýnar sem voru kaldari. Jöklar bráðna hratt, sjávarborð hækkar en grunnvatn lækkar.

Náttúruhamfarir:

Náttúruhamfarir verða meiri og öfgakenndari í heiminum á þessu ári. Jarðskjálftar verða víða um land og líklega eldgos í grennd við Reykjanes í sumar. Eldstöð á hálendinu kemur á óvart með kraftmiklu gosi sem stendur stutt. Náttúruhamfarir valda tjóni í vetur, Austurland sleppur best en þó verða þar hálkuslys.

Skyndilegt hlaup verður í Markarfljóti með tilheyrandi framburði sem hylur allan gróður og Landeyjahöfn hverfur. Eftir það vilja sumir gleyma því mannvirki.

Mikil bráðnun á jöklum flýtir fyrir eldgosum en líklega gýs ekki í Öræfajökli fyrr en eftir fimm ár, með tilheyrandi land- og byggðareyðingu á stóru svæði, þá munu íslendingar njóta hjálpar vinaþjóða.

Íslensk stjórnvöld ættu að venja sig við að bera fyrir brjósti um fram allt, tilverurétt eigin þjóðar.

Náttúruhamfarir eru ekki ferðamannasport, heldur skelfileg ógn við þjóðina. Norðmenn munu þá velta fyrir sér að bjóða til sín fólki af hamfarasvæðum og stofna Íslendinganýlendu.

Mengun:

Mengun heldur áfram að skaða land og sjó. Bandaríkin sitja nú þegar í súpunni en viðurkenna ekki vandamálið.

Rússar þegja en þar eru víða eiturefni sem skaðleg mengun stafar af. Afar hættuleg úrgangsefni úr kjarnorkutilraunum eru grafin í freðmýrar Síberíu. Þær eru farnar að þiðna og þá er lífríki sjávar einnig í hættu.

Einhver árangur mun nást við að draga úr mengun í sumum löndum en erfðabreytingar halda áfram um sinn.

Hormónanotkun í framleiðslu í Bandaríkjunum, til dæmis nautakjöti veldur offitu og heilsutjóni á fólki. Heilsufar á mönnum og skepnum verður sífellt lakara og lyfjanotkun eykst að sama skapi. Völvan sér ekki þessa þróun breytast á næstunni, þó allt sé þetta þegar vitað.

Völvunni sýnast veikindi kúnna á Egilsstaðabúinu, stafa af mengun frá Lagarfljóti. Þegar borað var gegnum Fljótsdalsheiði, var farið í gegnum gamla eldstöð. Þar var bergið svo laust að erfitt var að fóðra það og fengið óleyfilegt efni sökum eiturmengunar til að ljúka verkinu.
Dæmi eru um þetta frá Noregi, um þetta mun ríkja þögn eins og margt fleira.

Í Reyðarfirði mengar stóriðjan, sem þó var fullyrt að yrði ekki. Lygin breytir ekki raunveruleikanum, þó svo það sé látið gott heita að svart sé hvítt. 

Allur silungur er dauður í Lagarfljótinu og það brýtur land bænda út í sjó en þeir fá engar bætur.

Utanríkismál:

Evrópa er undir yfirráðum Þjóðverja og þar ríkir peningastríð. Lausnin felst í því að standa með Þjóðverjum í að taka bankana og þjóðnýta peningana. 

Annars verður lengi hörmungarástand í Evrópu. Bretar standa eitthvað lengur í vegi fyrir þeim áformum, en þarna verður samt upphafið að því að nýta auð í almannaþágu, til að skapa stöðugleika og velmegun allra ESB landa.

Í Rússlandi er bágt ástand á þjóðinni. Pútin mun hætta að stjórna vegna heilsubrests, valdatími hans er liðinn. Fólkið rís upp og heimtar viðunandi lífskjör. Völvunni sýnist Rússland enda sem þrjú sjálfstæð ríki og þar verða tekin upp vestræn mannréttindi á líklega næstu tíu árum. 

Bankar í Evrópu eru að springa utan af peningum, sem minnka stöðugt í verðgildi, þar sem verðmæti standa ekki á bakvið.

Angela Merkel veit þetta og reynir að hvetja til notkunar á peningum við verðmætasköpun svo hamla megi kreppu og stöðnun.

Peningaöflin ráða ennþá, en í lok ársins mun henni takast að byrja endurreisn Evrópu. Heimsmálin verða ekki auðveld, þó margir þjóðhöfðingjar vilji vel gera, tekst lítið að laga fyrir fólkið í fátæku löndunum.

Afríka er arðrænd og haldið í fátækt. Kína ætlar að eignast allan heiminn en það mun ekki takast, því þar verður kreppa og samdráttur  innan þriggja ára.

Bandaríkjaforseti gerir margt til að koma á heilbrigðisþjónustu fyrir alla og mun takast það að hluta til en síðan drabbast það niður aftur. Það er sorglegt að sjá Bandaríkin rotna og drabbast niður innan frá vegna mengunar og misréttis. Niðurrifsöfl eru glæpir og fátækt.

Öfgamenn í Ísraelsríki ógna eigin tilveru, með landtöku og stríðsrembingi. Þeir munu ekki hætta fyrr en þeim og þeirra landi verður eytt. Það er ótímasett en gerist skyndilega, þá verður djúp þögn um allan heim.

En svo verður sagt: „aldrei aftur svona.“ Eftir þetta verður farið að bæta lífskjör í Afríku og sýna meiri uppbyggingu og minni rányrkju í fátækum löndum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.