Völva Austurfréttar 2013: Bændur fara að blómstra

volvumynd_web.jpg
Ylrækt á grænmeti og útflutningur á kjöti verða framvegis mikilvægar stoðir í efnahagslífi íslensku þjóðarinnar, ekki síður en fiskur. Nýrrar stefnu er þörf í heilbrigðismálum sem metur mannslíf meira en peninga segir í þriðja hluta völvuspár Austurfréttar fyrir árið 2013.

Álver eru liðin tíð á Íslandi. Þau reynast orkufrek og arðlítil. Eftir sitja skuldir ríkisins vegna þeirra fjárfestinga. Reynt verður að vinna álið meira og það virðist ganga vel. Völvan sér ekki nýjar stóriðjur koma.

Olíuævintýrið mun færa fáum ríkum meiri auð, en Íslandsfjörur mengast af olíu. Vegna auðlinda okkar vilja margar þjóðir kaupa ýmislegt hér og má þakka Ögmundi fyrir að losa okkur við Kínverja en þeir munu samt eitthvað reyna meira.

Matvælavinnsla á sjó og landi mun færa þjóðinni arð og byggja landið hraustu fólki en ferðamannabólan kemur og fer.

Uppgangur á landsbyggðinni eftir átök í stjórnmálum

Ylrækt á grænmeti til útflutnings og kjötframleiðsla verður stór þáttur í efnahagsbata, færir þjóðinni ekki minni tekjur en sjávarútvegurinn og trausta byggð um allt land. Bændur fara að blómstra. Innflutning þarf að stoppa á öllu því sem hægt er að framleiða á Íslandi.

Áburðarverksmiðja er í spilunum og reynt að flýta því verkefni því innfluttur áburður er dýr.
Það verður loks uppgangur á landsbyggðinni eftir mikil átök í stjórnmálum.

Aftur verður farið að flytja póst með flugi ásamt ýmsum vörum til að styrkja samgöngur á fleiri staði og hlífa vegum.

Að hætta við saumaskap og ullariðnað var heimskulegt og ekki skaðlaust fyrir efnahaginn.

Fram kemur á árinu að menntun á hagfræðingum hefur greinilega brugðist. Ef ekki væri raunveruleikafirring í þeirri menntun, hefðu þeir átt að láta til sín taka vegna fjármálaóreiðu sem stefndi í hrun. Hagfræðingar og viðskiptajöfrar lærðu það eitt að víxla plús í mínus. Völvunni sýnist það vera svo að óarðbært sé metið í plús en arðbært í mínus.

Það er ekki nýtt að fólki sé misvel gefið fjármálavit, líklega eru 100 ár síðan ein sveitakona  lýsti tveimur bændum í sveitinni svona: „Hann er fjármálaspekingur eins og faðir hans,“ hinn bóndann sagði hún „gersneyddan af öllu konuviti.“

Umdeilt lag í Eurovision

Fjáraustur til íþróttamála fær gagnrýni og verður bendlaður við eiturlyfjasölu. Eitthvað kemur RÚV og útvarpsstjóri að þeirri umræðu, sem verður til þess að íþróttaútsendingar minnka í sjónvarpinu.

Lag verður sent í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, sem allir eru ekki jafnhrifnir af. Enginn trúir því víst lengur að við séum best í öllu, þó reynt verði að segja það einu sinni enn. Þetta lag verður þó ekki í neðsta sæti. 

Mikil óánægja er með Pál Magnússon útvarpsstjóra sem hefur gert RUV, fjölmiðil þjóðarinnar, að íþróttarás með auglýsingum og glæpaseríum, en fréttaþöggun er viðvarandi. Fólk neyðist til að kaupa sér aðgang að öðrum rásum, sem eru heldur skárri.

Brenglaðir menn í dómskerfinu

Glæpagengi á Íslandi er rugl og dópsala óþarfa skandall. Í svo litlu landi, þar sem allt er vitað sökum smæðar fréttist allt. Ekki verður lengur breitt yfir þessa glæpi með áróðri gegn tóbaki.  Reykingafólk er vinir, hafa jákvæð áhrif félagslega og af því stafa ekki vandræði en það verður ekki sagt um glæpamenn og fíkla. 

Það vekur mikla andúð á stjórnvöldum hvernig ráðist er að reykingarfólki og tóbakinu spillt, á meðan víndrykkja er auglýst með mat og af ýmsu tilefni í sjónvarpi, en dópneysla eykst og glæpir að sama skapi. 

Sala á vændi er enn viðloðandi sem von er þegar pólitíkus segist í sjónvarpsþætti vilja láta lögleiða vændi til að vera eins og aðrar þjóðir.

Það er mikið að í dómskerfinu og þar starfa menn sem eru dálítið brenglaðir í kynferðismálum. Þess vegna ganga nauðgarar og kynferðisbrotamenn lausir og fólk er hrætt við að segja frá, því ekkert er gert lagalega. Ef hundar fóru á lóðarí og hlupu á aðra bæi í gamla daga voru þeir geltir og voru heima eftir það feitir og rólegir.

Banki verður rændur utan vinnutíma, þar koma við sögu þyrla og skip. Ræningjarnir sleppa úr landi,því þetta er allt vel skipulagt af Íslendingum í samstarfi við vana erlenda afbrotamenn.

Nýja stefnu þarf í heilbrigðismálum sem virðir mannslíf

„Margt þarf að laga í þessu landi,“ segir Völvan. Heilbrigðisþjónustan er afar léleg og miklir fjármunir fara í ferðakostnað á veiku fólki. Fólk spyr, snýst heilbrigðisþjónusta um peninga, ekki mannslíf og heilsu, eru læknar ábyrgðarlausir?

Nýja stefnu þarf sem virðir mannslíf og hættir að hafa peninga númer eitt. Ódýrast væri að hafa sjúkrahús vel búin tækjum sem víðast um landið og færustu lækna þar að störfum.

Vopnfirðingar vildu segja sig frá HSA batteríinu og fá fjárveitingar beint til sín. Völvunni sýnist að svo eigi eftir að verða með fleiri sjúkrastöðvar á Austurlandi, svo þjónusta verði góð á hverjum stað og ferðakostnaður lítill.

Völvan minnir á að í gamla daga var fólk skorið upp á fjárhúshurð í baðstofu og tókst vel, snjallir læknar þar.

Völvunni sýnist heilsu fólks hraka og færast nær ástandinu um árið 1900, nema hvað lyfsala er hamslaus, án lækninga. Völvan álítur að þetta snúist allt um peninga.  

Trúleysið kemur í bakseglin

Kirkjan beitir sér fyrir tækjakaupum á Landsspítala Háskólasjúkrahús, vegna þess að mannslíf eru í húfi.

Trúlausir kerfispólitíkusar setja út á þetta og tala um peninga, sem þeir viðast meta meira en mannslíf. Þeir eru sjálfir á launum frá ríkinu og láta ekki neitt af sínu til líknarmála.

Það er að koma í bakseglin, að kenna ekki siðalögmál kristinnar trúar í skólum. Það er staðreynd að trúleysi eykst með veraldlegri velgengni og þá fara sumir að hugsa: „Þú þurftir ekki guð, ég gat.“

En þegar kreppir að fara menn aftur að sækja styrk í trúna. Það eitt er víst að á öldum áður voru svo miklir erfiðleikar, þegar hungur, pestir, kuldi og hafís ætluðu allt að drepa, að menn báðu Guð að hjálpa sér .

Það er kraftaverk að þjóðin dó ekki út. Þessi kreppa okkar núna er ekki svona slæm, en trúin er okkar andlegi styrkur.

Þurfti ekki Guð, ég gat

Völvan segir dæmisögu því til stuðnings í nesti fyrir framtíðna.

Maður nokkur dettur ofan í brunn og sér enga leið til að komast upp aftur. Verður hann þá svo örvæntingafullur að hann biður Guð að hjálpa sér, svo hann deyi ekki þarna.

Fær hann þá kjark til að reyna að klifra upp úr  brunninum. Allt gengur vel þar til hann er kominn upp að brunn barminum og ætlar að vega sig upp og hrópar. „Þú þurftir ekki Guð, ég gat.“ En þá hrapaði hann aftur ofan í brunnin.

Völvan endar svo á því að rifja upp erindi úr kvæði eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

Þú mikli eilífi andi, 
sem í öllu og allstaðar býrð.
Þinn er mátturinn 
þitt er valdið,
þín er öll heimsins dýrð.
Þú ríkir frá örófi alda,
varst allra skapari og skjól
skyggnist um heima alla
hulinn myrkri og sól.
Allt lifandi lofsyngur þig
hvert barn hvert blóm.
Þó enginn skynji né skilji
þinn skapandi lendardóm.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.