Vinavika hafin á Vopnafirði

vinavika_2012_2_web.jpg
Árleg vinavíka æskulýðsfélags Hofsprestakalls hófst í gær en hún er nú haldin í þriðja sinn. Dagskráin í gær hófst með Vinabíói og Vinafánar voru dregnir að húni í Vopnafirði.

Ókeypis var í Vinabíóið fyrir alla vini og undirbúningur hófst snemma, en það þurfti að myrkva salinn, raða stólum, poppa og setja upp sjoppuna. Einnig að ganga frá og taka til á eftir. Þar var sýnd teiknimyndin Lorax sem gerð er eftir sögu Dr. Seuss.

Í dag mánudag fara unglingarnir um bæinn og skreyta fyrirtæki og stofnanir með blöðrum, hjörtum og vinalegum skilaboðum. Á miðvikudag verður græni dagurinn, en þá eiga allir að klæðast grænu og óvæntir viðburðir verða um alla bæ. 

Fimmtudaginn gefst öllum bæjarbúum kostur á að taka þátt í Vinaskrúðgöngu, þar sem stórt hjarta verður myndað. Á föstudaginn verður Knúsdagur, en þá munu unglingarnir gefa öllum barmerki og knús og vera í verslunum, vinnustöðum og bjóða fram aðstoð sína. Þá verða einnig óvæntir viðburðir alla vikuna, sem nokkur leynd hvílir yfir og á að koma bæjarbúum og gestum á óvart.

Vinavikunni lýkur sunnudaginn 21. október með kærleiksmaraþoni, Vinamessu, pítsuveislu og flugeldasýningu. Í maraþoninu verður opið hús í safnaðarheimilinu þar sem verður boðið upp á ókeypis vöfflur, skúffuköku, djús og kaffi, einnig bílaþvott og andlitsmálun fyrir börn. Þá munu unglingarnir ganga í hús og bjóða fram aðstoð sína við létt heimilisstörf. 

Kærleiksmaraþoninu lýkur með Vinamessum í Vopnafjarðarkirkju, þar sem unglingarnir taka virkan þátt með flutningi bæna og ritningarlesturs og syngja lag sem þau hafa verið að æfa fyrir messuna. Eftir messuna verður pítsuveisla og Vinavikunni lýkur með flugeldasýningu. 

Ábyrgð og framkvæmd Vinavikunnar er í höndum unglinganna í æskulýðsfélaginu. „Hugrekki og áhugi unglinganna hefur vakið mikla athygli og þau hafa verið óhrædd við að gefa af sér og láta ljós sitt skína. Með framtaki sínu vilja þau leggja áherslu á að gefa af sér í kærleika og vináttu og þannig minna um leið á það sem mikilvægast er í lífinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.