„Vil trúa því að í mér liggi hörku kassagítarpartýspilari“

„Ég er sífellt að læra eitthvað nýtt og það er alveg frábært að fá að kynnast nýju fólki og sjá það frábæra starf sem það gerir í sinni heimabyggð í sjálfboðavinnu,“ segir Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar, en hún er nýr verkefnastjóri Rauða Krossins á Austurlandi og er í yfirheyrslu vikunnar.



Margrét Dögg er með BA gráðu í guðfræði frá Háskóla Íslands og hálfnuð með meistaranám í uppeldis- og menntunarvísindum.

Hún segir starfið leggjast vel í sig eftir fyrstu vikurnar. „Helstu verkefni mín eru að aðstoða deildirnar á svæðinu við þeirra verkefni í nærsamfélaginu og vera tengiliður landsskrifstofu Rauða krossins við deildirnar. Ef deildirnar þurfa til dæmis aðstoð við að skipuleggja námskeið þá geta þær leitað til mín.“

Fullt nafn: Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar.

Aldur: 32 ára.

Starf: Verkefnastjóri Rauða Krossins á Austurlandi.

Maki: Víðir Sigurðsson.

Börn: Sigríður Svandís, 9 ára og Snævar Aron, 4 ára.

Búseta: Fellabær.

Uppruni: Ég er uppalin á Torfastöðum í Jökulsárhlíð ásamt því að eiga miklar tengingar uppá Jökuldal.



Kaffi eða te? Kaffi, skil ekki te.

Hver er þinn helsti kostur? Ég trúi á það góða í fólki og ég get verið mjög skipulögð – spurning hvort systkini mín telji skipulagshæfileika mína vera kost eða ókost.

Hver er þinn helsti ókostur? Mér hættir til að færast of mikið í fang.

Duldir hæfileikar? Ég vil trúa því að í mér liggi hörku kassagítarpartýspilari, það er þó enn í vinnslu (eða æfingu) að grafa upp þennan hæfileika.

Mesta afrek? Fyrst að hér er ekki tiltekið mesta afrek mitt, þá segi ég að hið mesta afrek er stórfjölskyldan mín!

Draumastaður í heiminum? Jökulsárhlíðin mín fallega – þar er alltaf svo frábært að vera.

Undarlegasti matur sem þú hefur smakkað? Hef ekki verið mjög dugleg að smakka undarlega fæðu.

Hvað hefur þig alltaf langað að gera en hefur ekki enn gert? Á eftir að prófa að búa erlendis.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að stöðva tímann – eða allavega hægja á honum!

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Má ég ekki fá að hitta Vigdísi Finnbogadóttur? Að fá að eyða degi með henni held ég að myndi færa manni mikinn lærdóm.

Settir þú þér áramótaheit? Nei.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Föstudagskvöld eru yfirleitt kvöldin þar sem maður hefur ekkert sérstakt á prjónunum. Alveg búinn á því eftir vinnuvikuna og mögulega búinn að plana eitthvað um helgina, svo föstudagskvöldið er letikvöldið. Svo hefur það lengi verið mín skoðun að miðvikudagar eigi að vera stuttir vinnudagar, fínt að brjóta upp vinnuvikuna!

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Jákvæðni, húmor og svona þegar einstaklingar eru afslappaðir í samskiptum.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Foreldrar mínir – hvílíkur dugnaður!

Hvað ætlar þú að kjósa í komandi alþingiskosningum? Er ekki búin að gera upp hug minn!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.