„Veðurteppt“ heima í júlí

Austfirðingar hafa notið þess að hafa besta veðrið á landinu síðustu vikur og sýnt á sér lítið fararsnið. Fleiri og fleiri gestir eru farnir að sjást á tjaldsvæðum fjórðungsins.


„Við ætluðum að ferðast um landið í sumar en höfum eiginlega verið „veðurteppt“ á Egilstöðum í júlí. Við höfum ferðast um í nærumhverfinu og farið í fjallgöngur, veiði og leigt okkur hesta,“ segir Heiður Vigfúsdóttir, eigandi Austurfarar sem meðal annars rekur tjaldsvæðið á Egilsstöðum.

Heiður segir að hún og maður hennar hafi ætlað með syni sína þrjá í útilegu í sumar. Þau enduðu hins vegar á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum. „Við hjóluðum þangað og höfðum með okkur nesti,“ segir Heiður og hlær.

Sömu sögu er hins vegar ekki að segja úr öðrum landshlutum og hefur vætutíð í Reykjavík ekki farið framhjá öðrum landsmönnum. Heiður segir að þrátt fyrir að umræðan um vosbúðina á suðvesturhorninu og veðurfréttir jafnvel villandi hafi verið áberandi séu alltaf fleiri og fleiri sem feti sig austur í sólina.

„Við finnum að það fjölgar á tjaldsvæðinu. Þrátt fyrir rigningarumræðuna þá eru alltaf fleiri og fleiri sem átta sig á hvar sólina er að finna.“

Heiður segist einnig verða vör við umræðu í bænum um að hitatölurnar frá Egilsstöðum gefi ekki alltaf rétta mynd. „Veðurstöðin er á flugvellinum í kulda frá fljótinu og berskjölduð fyrir vindinum. Gróður skýlir hins vegar bænum.“

Útlit er fyrir áframhaldandi blíðu og spáð er 15-20 stiga hita eins langt og spá Veðurstofu Íslands nær fyrir svæðið.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.