Úr verkfræði í fyrirtækjarekstur

Ingibjörg Karlsdóttir ákvað nýlega að venda sínu kvæði í kross, tók sér árs leyfi frá starfi sínu sem verkfræðingur hjá Alcoa Fjarðaáli og stofnaði sín eigin fyrirtæki, Fyrirtækjagjafir og Lakkrísfélagið.



Ingibjörg er frá Reykjavík en hefur verið búsett á Reyðarfirði frá 2010 að frátöldu einu ári þar sem hún bjó meðal annars í Sádí Arabíu. Ingibjörg er gift Ingólfi Tómasi Helgasyni tæknifræðingi.

Fyrirtækjagjafir bjóða heildarlausnir í umsjón gjafa fyrir fyrirtæki og félagasamtök á landsvísu.

„Hugmyndin kviknaði fyrir jólin í fyrra, en ég hef alltaf haft mjög gaman af því að gefa gjafir og pakka þeim fallega inn. Ég hef mikinn áhuga á fallegum hlutum og er alger sælkeri þannig að þetta var eitthvað fyrir mig,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg segir markmiðið vera að setja saman gjafir eftir óskum hvers og eins fyrirtækis, annað hvort vinna eftir þeirra hugmyndum eða koma með tillögur fyrir hvert og eitt tilefni.

„Starfsmenn og viðskiptavinir eru einn stærsti auður fyrirtækja og gjafir eru tilvalin leið til að sýna þakklæti eða samgleðjast áföngum í lífinu, stórum sem smáum – en þetta geta verið jólagjafir, afmæli, barnsfæðingar, starfslokagjafir eða viðurkenning fyrir vel unnin störf.

Ég veit ekki til þess að annað fyrirtæki sérhæfi sig í þessari þjónustu, en vissulega eru fyrirtæki að bjóða sínar vörur vel samsettar og fallega innpakkaðar, annað hvort matarkörfur eða gjafavöru. Við getum hins vegar sett saman hvað sem er og þurfum ekki að einskorða okkur við einn birgja, heldur erum einskonar milliliður þannig að fyrirtæki þurfa bara að leita til eins aðila og fá tilbúnar, fallega innpakkaðar gjafir með korti.“


Gjafakortið persónulegra fallega innpakkað

Ingibjörg segir algengt að fyrirtæki gefi gjafakort í banka. „Það er alltaf góð hugmynd sem nýtist öllum, en það er ennþá fallegra og persónulega að afhenda það fallega inn pakkað með viðeigandi kveðju í korti. Það er þessi persónulega nálgun sem viljum ná. Þegar þú færð gjöf er upplifunin það sem skiptir mestu máli og að alúðin sem lögð hafi verið í hana skili sér frá gefanda til þiggjanda.


Hagkvæm leið fyrir fyrirtæki

Aðspurð hvort þessi leið sé hagkvæmari fyrir fyrirtæki landsins segir hún það vissulega vera markmiðið. „Hugmyndin var alltaf að þetta yrði hagkvæm leið fyrir fyrirtæki og sérstaklega þegar fram líða stundir og við komin með fleiri viðskiptavini og sterkari samninga. Einnig sparar þjónustan tíma og fyrirhöfn við gjafakaup og við leggjum mikið upp úr persónulegri og framúrskarandi þjónustu.“

Ingibjörg segir verkefnið fara vel af stað. „Við erum að mestu í markaðssetningu núna en þó komin með nokkur verkefni og móttökurnar eru fínar. Hafa undanfarnir mánuðir farið í undirbúning og markmiðið er að vera komin vel af stað fyrir jól.“

Verkfræðingar eru oft taldir „ferkantaðir“ og fastir í sínu fagi. „Ég er kannski ekki alveg þessi dæmigerði verkfræðingur og er með eitthvað listagen í mér. Ég útskrifaðist úr rekstrarverkfræði, en það snýst mikið um rekstur og stjórnun fyrirtækja og má kannski segja að það sé ekki eins „hardkor“ verkfræði og véla- eða rafmagns-, svona meira út í viðskiptafræði sem ég nýti mér í mínu nýja starfi.“


Gjafir til að grípa

Ingibjörg stökk ekki aðeins á stofna þetta eina fyrirtæki í leyfinu sínu, heldur rekur hún einnig gjafavöruverslunina Lakkrísfélagið.

„Það er ennþá bara lítið, sætt hliðarverkefni, af einskærum áhuga mínum á fallegum hlutum og gjöfum,“ segir Ingibjörg þegar talið berst að Lakkrísfélaginu.

Ég sá tækifæri í samfélaginu okkar þar sem lítið framboð er af gjafavöru og býður verslunin skemmtilega og fallega hluti sem gleðja og fegra heimilið. Ekki gefst alltaf tími til að panta á netinu og langaði mig að auka fjölbreytni í þjónustu hér í bænum. Mér finnst fólk taka þessu mjög vel og nýta sér þessa þjónustu,“ segir Ingibjörg en bæði rekur hún verslunina á facebook og heima hjá sér. Einnig stefnir hún á að auka vöruúrval og opna vefverslun.

„Markmiðið er að vera með gjafavöru fyrir alla, mest megnis fallegir hlutir fyrir heimilið, gjafir til að grípa. Þetta er voða lítið eins og er en er vaxandi verkefni og stefni ég á að opna netverslun þegar fram líða stundir,“ segir Ingibjörg en hún er með hluti frá Arabia, Menu, Lakrids, Nuance ofl.

Aðspurð að nafninu segir hún; „Það er nú í rauninni engin sérstök saga á bak við það, ég er reyndar að selja lakkrís en mér fannst þetta bara skemmtilegt nafn.“

Ingibjörg segir það vissulega hafa verið töluverð viðbrigði að flytja út á land með tilliti til verslunar og þjónustu. „Fyrst var það svolítið sjokk, en maður verður bara að taka málin í sínar hendur ef eitthvað vantar, það þýðir ekki að ætlast til þess að það geri það einhver annar.“

fyrirtækjagjafir

 Ljósmynd af Ingibjörgu: Jón Tryggvason. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.