Unnar Geir: Snýst ekki um mætinguna heldur að hafa valið

Unnar Geir Unnarsson lét um áramótin af störfum sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs sem er með bækistöð sína í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Hann segir það ekki rétt sem margir hafa haldið fram að Egilsstaðabúar sé latir við að sækja menningarviðburði.


„Það verður að skoða þetta út frá íbúafjölda og samfélaginu. Ég man eftir að hingað kom kammerhópur sem var á ferð um landið og ákvað að halda tónleika á Egilsstöðum. Þær voru fimm að spila og það mættu tíu. Ég var að afsaka það en þeim var alveg sama. Þær sögðust oft hafa haldið tónleika fyrir færri í Reykjavík.

Málið snýst ekki um mætinguna heldur að geta boðið upp á viðburði. Þú hafðir tækifæri en mættir ekki. Fólkið vill hafa framboðið en kemst ekki alltaf og menn hafa mismunandi áhugamál sem er eðlilegt.

Fólk er ánægt með að það sé mikið að gerast þótt það mæti ekki. Það vill hafa öflugt menningarlíf í sveitarfélaginu og er stolt af því því það er hluti af lífsgæðunum að geta farið ef það langar,“ segir Unnar Geir í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Draugasamfélagið

Fólkið er einnig félagslega virkt á öðrum stöðum eða á erfitt með að taka þátt í viðburðum sökum vinnutíma.

„Hér eru margir í vaktavinnu sem skapar það sem ég kalla draugasamfélagið. Við höfum annars vegar fólkið sem vinnur níu til fimm og svo fólkið sem er í fríi eða að jafna sig eftir vakt þegar dagvinnufólkið er að vinna og nær þess vegna ekki að taka þátt í samfélaginu.

Hér er líka önnur hver manneskja í kór, er í íþróttum eða á fjölskyldu og stundum langar mann að vera heima og horfa á Útsvar. Ég er nokkuð viss um að hér eru hlutfallslega fleiri viðburðir en í öðrum landshlutum. Mantran um að fólk mæti aldrei á bara ekki við rök að styðjast.“

Hann segir hins vegar mikilvægt að í jafn litlu samfélagi taki einstaklingarnir af skarið. „Ef við segjum að það sé ekkert um að vera þurfum við að taka aðeins meiri þátt sjálf. Það hugsar enginn um þig og sér til þess að þér sé skemmt. Stundum þarf maður að bera sig eftir björginni. Ekki bíða eftir að einhver geri eitthvað. Í svona litlu samfélagi þarft þú stundum að vera þessi einhver.“

Gott dæmi um hús sem fengið hefur nýtt hlutverk

Unnar Geir kom til starfa í Sláturhúsinu í sumarbyrjun 2015. Hann segir Menningarmiðstöðina þá hafa verið á tímamótum og gefandi hafi verið að vinna að stefnubreytingum sem á henni hafi orðið. Margt hafi áunnist á fyrsta árinu en að því loknu hafi hann fundið fyrir þreytu þar sem verkefnin sem hann ætlaði sér að klára voru að bakið. Því hafi hann ákveðið að söðla um.

Nú liggi til dæmis fyrir að Sláturhúsið og Safnahúsið séu menningarhús Fljótsdalshéraðs. Sláturhúsið hefur löngum verið umdeilt en rúm tíu ár eru síðan sveitarfélagið keypti það af Kaupfélagi Héraðsbúa og ákvað að hafa þar menningarstarfsemi.

Margir Héraðsbúar hafa hins vegar átt erfitt með að sækja viðburði þar, minnugir fyrri starfsemi. Unnar Geir segir það viðhorf vera að breytast.

„Margir sjálfskipaðir verkfræðingar voru þess fullvissir að húsið væri ónýtt en það er ekki hrunið enn. Það er ekki hægt að kvarta yfir steinsteypunni en það þurfti að taka til í starfseminni. Ég fann fyrir rosalegum meðbyr, bæði í bæjarkerfinu og samfélaginu og því að fólk var tilbúið að samþykkja Sláturhúsið sem menningarsetur.

Ég skil að sumir hafi átt erfitt með að meðtaka það. Margir sem unnu í húsinu eða komu inn í það sjá ekki sláturhús KHB sem menningarhús sveitarfélagsins. Ákvörðunin er löngu tekin og það er búið að verja miklum fjármunum í að gera húsið upp og það er orðið mjög frambærilegt menningarhús.

Allir okkar gestir, hvort sem þeir dveljast í gestaíbúðinni eða sýna hér, eru ofboðslega hrifnir af því og það er horft til þess sem dæmi um gamalt atvinnuhús sem skilað hefur sínu hlutverki og fengið nýtt.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.