Tvö austfirsk verkefni tilnefnd til Eyrarrósarinnar

img_6172_fix01_web.jpg
Tvö af þeim þremur menningarverkefnum sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar árið 2013 eru á Austurlandi. Þetta eru Eistnaflug og menningarmiðstöðin Skaftfell. Tvö austfirsk verkefni hafa áður hlotið viðurkenninguna.

Í umsögn valnefndar um Eistnaflug segir að þar sé „þýðingarmikill vettvangur þungarokkstónlistar á Íslandi. Eitt af aðalsmerkjum Eistnaflugs er sú einstaka stemmning sem myndast í bænum á meðan hátíðinni stendur og sá velvilji og samstaða sem ríkir um framkvæmd hennar meðal gesta, tónlistarfólks og heimamanna.“

„Kraftmikil og metnaðarfull starfsemi með skýra listræna sýn“ eru sögð einkenni Skaftfells. „Með nánu samstarfi við bæjarbúa hefur orðið til á Seyðisfirði lifandi samfélag listamanna, heimamanna og gesta.“

Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Hún verður veitt í níunda sinn þriðjudaginn 12. mars næstkomandi. í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Að auki er einleikjahátíðin Act Alone á Ísafirði tilnefnd til verðlaunanna í ár.

Handhafi Eyrarrósarinnar hlýtur 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Aðrir tilnefndir hljóta 300 þúsund krónur auk flugferða. Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista.
 
Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar samkomuna og Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin. 

Hin austfirsku verkefnin sem fengið hafa verðlaunin eru LungA og Bræðslan.

Kátir gestir á Eistnaflugi 2011. Mynd: Stebba

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.