„Þolendur kynferðisofbeldis búa líka úti á landi“

Drusluganga, sem farin er gegn kynferðisofbeldi, verður gengin í þriðja sinn á Borgarfirði á morgun í tengslum við tónlistarhátíðina Bræðsluna. Stafrænt kynferðisofbeldi er í brennidepli að þessu sinni.


„Gangan á Borgarfirði er lítið útibú frá stóru göngunni en það er mikilvægt að haft sé hátt um þessi mál úti á landi.

Gerendur kynferðisofbeldis búa úti á landi og eins þolendur þess. Með göngunni viljum við sýna stuðning okkar í verki, að kynferðisofbeldi verði ekki liðið,“ segir Rebekka Karlsdóttir sem er meðal þeirra sem skipuleggja gönguna.

Gangan fer af stað klukkan eitt frá kirkjunni og gengið verður að Fjarðarborg. Ræðumenn eru þær Sólveig Hjarðar og Þórhildur Sæmundsdóttir en Andra Gylfadóttir og Hinemoa, sem koma fram á Bræðslunni um kvöldið, flytja tónlist.

Stafrænt kynferðisofbeldi er þema göngunnar í ár en það er valið til að þrýsta á stjórnvöld að skilgreina lagarammann í kringum það betur.

„Þetta er tiltölulega ný gerð af kynferðisofbeldi sem hefur aukist með meiri netsamskiptum. Fólk verður að átta sig á að það er gerendur taki það upp, skoði eða deili kynferðislegu efni án samþykktar þess sem það sýnir.“

Mikil þátttaka hefur verið í göngunni á Borgarfirði. „Ég gekk með í fyrsta skipti í fyrra. Þátttakan var ótrúlega góð og andinn góður enda eru meira og minna allir á Borgarfirði þessa helgi. Með því að ganga með sýnum við að kynferðisofbeldi er ekki í lagi.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.