„Þetta verður aldrei verðlagt“

Um fimm hundruð manns mættu á hreyfiviðburðinn „Öll sem eitt – áfram Elli“ sem haldinn var samtímis á Reyðarfirði og Reykjavík síðastliðinn laugardag, til stuðnings Elíasi Geir Eymundssyni.



Eins og Austurfrétt greindi frá í síðustu viku tóku vinir Elísar Geirs sér til og blésu til hreyfiveislu til stuðnings Ella og fjölskyldu sem hné niður úr heilablóðfalli þegar hann var úti að hlaupa 2. apríl síðastliðinn. Þá grein má lesa hér.

„Það mættu 400 manns á Reyðafirði og 100 í Reykjavík og segja má að þátttakan hafi farið fram úr okkar allra björtustu vonum, en þó svo við höfðum gert okkur grein fyrir því að mikill fjöldi myndi mæta, þá er 500 manns mun meira en við höfðum áætlað,“ segir Jóhann Eðvald Benediktsson, einn skipuleggjenda viðburðarins.

„Það komu margir að máli við okkur sem vildu þakka okkur fyrir að gera þeim kleift að styrkja Ella, ekki bara með fjárframlagi, ekki síður að koma saman og sýna samstöðu og senda honum baráttukveðju.

Það er ómetanlegt að finna fyrir svona samstöðu og fyrir Ella og fjölskyldu verður þetta aldrei verðlagt, heldur er þetta eins og vítamínssprauta í verkefnið sem bíður þeirra. Það sem safnaðist mun létta mikið undir með þeim, þar sem ferðalög milli Austurlands og höfuborgar með tilheyrandi kostnaði verða ansi tíð næstu mánuði.

Við sem að þessu stóðum viljum þakka öllum sem komu og öllum þeim sem komust ekki en sendu kveðju og studdu við söfnunina með innlögn á bankabókina. Jafnframt viljum við koma sérstökum þökkum til nokkurra fyrirtækja sem styrktu daginn með gjöfum, en það voru Egersund Ísland, Olís, Sesam bakarí, Skiltaval, Hljóðkerfaleiga Austurlands, Ölgerðin og Vífilfell, en þau gerðu okkur mögulegt að standa svona að þessu.

Elli er enn á taugadeildinni á Landsspítalanum. Hann er á leið í aðgerð á miðvikudag, þar sem bein sem var fjarlægt úr höfuðkúpu hans vegna bólgu verður aftur sett á sinn stað. Í framhaldinu mun hann losna við gifs af vinstri fæti, en hann ökklabrotnaði við fallið.

Þrátt fyrir að vera enn á taugadeildinni er hann byrjaður í sjúkraþjálfun og náði að fara 25 metra í göngugrind með aðstoð á föstudaginn síðasta. Fljótlega mun koma í ljós hvenær hann kemst á Grensás deildina til að byrja sína endurhæfingu af fullum krafti,“ segir Jóhann Eðvald.

 

Njótum lífsins og munum að lifa í núinu


Ragnheiður Ingibjörg Elmarsdóttir, kona Ella, segir fólkið í samfélaginu hafi svo sannarlega snert hjörtu þeirra með viðburðinum sem og þeim hlýhug sem þau hafa fundið fyrir á þessum erfiðu tímum.

„Þegar maður lendir í áfalli finnur maður hvað það er í raun sem skiptir máli í lífinu, en það er fólkið í kringum mann. Við búum blessunarlega svo vel að eiga yndislega fjölskyldu og gott bakland sem greip mig og börnin þegar Elli var sem veikastur. Ég get ekki ímyndað mér hvernig fólk stendur í lappirnar í svona stöðu ef það hefur ekki gott fólk sér við hlið.

Í kjölfarið tók annað net við okkur, okkar dásamlegu vinir og samfélagið sem við búum í, en í sannleika sagt þá eigum við bara ekki til orð yfir þessu framtaki og finna allan þennan hlýhug og samstöðu í okkar garð.

Ég mætti í hlaupið hér á höfuðborgarsvæðinu sem var dásamleg stund og gaman að hitta alla sem komu. Þegar ég tala við fólk fyrir austan og skoða myndir og myndbönd er eins og um 17 júní hafi verið að ræða, fólksfjöldinn og stemmningin var ótrúleg.

Þetta gaf Ella mikinn kraft og þykir honum mjög vænt um þann kærleika sem fólkið í okkar bæjarfélagi hefur sýnt honum. Það er alltaf gott að finna að maður er hluti af einhverri heild og að fólki þykir vænt um mann. Njótum lífsins og munum að lifa í núinu,“ segir Ragna.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.