Styrkur frá Evrópu unga fólksins nýttist í ungmennaskipti LungA

lunga_2012_euf.jpg
LungA, Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, fékk tæpar átta milljónir króna frá Evrópu unga fólksins (EUF) til að standa að ungmennaskiptiverkefni síðasta sumar. Í ár var alls úthlutað tæpum 230 milljónum króna frá EUF til æskulýðsmála á Íslandi.

EUF er styrkjakerfi Evrópusambandsins fyrir ungt fólk. Í ár var úthlutað tæpum 227 milljónum króna til 61 verkefnis á sviði æskulýðsmála.

LungA var meðal þeirra verkefna sem voru styrkt en verkefnið fékk um átta milljónir króna til í ungmennaskipti sem voru samhliða hátíðinni. Þátttakendur voru um sextíu talsins og samstarfsaðilar voru Linnanmåen sirkuskuolu í Finnlandi og Kaos Pilot í Danmörku. Yfirskrift verkefnisins var „Listir og lýðræði.“ Ungmennin tóku þátt í smiðjunum á LungA en unnu einnig í verkefnum eftir að sjálfri hátíðinni lauk.

„Við hjá Evrópu unga fólksins erum afar ánægð með að hafa möguleika á að styrkja fjölbreytt starf ungs fólks á Íslandi og þeirra sem vinna með ungu fólki. Nú þegar atvinnuleysi ungs fólks er jafnmikið og raunin ber vitni þá er mjög ánægjulegt að geta styrkt ungt fólk til skemmtilegra og lærdómsríkra verkefna. Á vegum Evrópu unga fólksins hafa nokkur atvinnulaus ungmenni t.d. farið sem sjálfboðaliðar til Evrópulanda á árinu“ segir Anna Möller, forstöðumaður Evrópu unga fólksins á Íslandi

Evrópa unga fólksins er íslenska heitið á Ungmennaáætlun Evrópusambandsins, Youth in Action, er samstarfsverkefni ESB, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og UMFÍ. Áætlunin veitir styrki fyrir ungt fólk á aldrinum 13-30 ára og þá sem starfa með ungu fólki. Ísland hefur átt aðild að Ungmennaáætluninni frá 1994. Næsti umsóknarfrestur er 1. febrúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.