Snemma beygist krókurinn

Ár er liðið síðan hugmyndafræði Cittaslow var innleidd í Djúpavogsskóla. Mikil vinna liggur að baki verkefninu og áframhaldandi þróunarvinna er fram undan en Djúpavogshreppur er eina sveitarfélagið á Íslandi sem er hluti af hæglætishreyfingunni Cittaslow.


„Töluverð undirbúningsvinna hafði farið fram áður en þetta var ákveðið og höfðu viðræðu- og spjallfundir verið haldnir haustið 2015. Það var svo í byrjun árs 2016 sem allt var sett á fullt og við sóttum um tvo styrki til þess að koma verkefninu af stað,“ segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir skólastjóri en annars vegar fékkst styrkur frá Sprotasjóði Kennarasambands Íslands og hins vegar frá Erasmus+, sem er hluti af menntaáætlun Evrópusambandsinsen Rannís á Íslandi sér um utanumhaldið hér á landi.

 

 

Sérstaða, fjölbreytni og virðing
Halldóra segir að frá hausti 2016 hafi tíminn verið nýttur til þess að máta skólann inn í verkefnið og þróa leiðir til að halda utan um innleiðinguna. Hún segir að hugtökin sérstaða, fjölbreytni og virðing nái að langstærstum hluta utan um hugmyndafræðina. „Þessi hugtök eiga að vera rauði þráðurinn í öllu skólastarfinu, það er stóra markmiðið og ljóst er að það mun taka okkur nokkur ár að festa innleiðinguna í sessi.“

Sex starfsmenn Djúpavogsskóla fóru til Orvieto á Ítalíu í janúar síðastliðnum þar sem verkefnið var kortlagt og grunnur lagður að áframhaldandi samstarfi. Í maí fóru svo tólf nemendur úr 8.-10. bekk í skólaheimsókn, ásamt þremur fylgdarmönnum. „Nemendurnir dvöldu í fimm daga og kynntust bæði nýju fólki og menningu og komu heim með frábærar minningar og eru spenntir að taka á móti ítölskum nemendum á vorönn 2018. Í september komu svo sex kennarar til okkar frá Orvieto,“ segir Halldóra.

Dagskipulaginu breytt
Halldóra segir að verkefni vetrarins verði meðal annars að flokka, huga að matarsóun og fleira því tengt. „Við höfum einnig breytt dagskipulagi í grunnskólanum, settum til dæmis á sérstakan nestistíma að morgni til þess að nemendur gætu notið þess að borða nestið sitt í rólegheitunum. Einnig færðum við hádegisverðinn fram um hálftíma til að koma til móts við svanga nemendur. Að sama skapi var ákveðið að hafa útiveru í hádeginu sem varð til þess að unglingarnir okkar sátu saman allt hádegið og spjölluðu um heima og geima og yngri nemendur nutu þess að vera úti í leikjum,“ segir Halldóra.

„Við héldum fyrst að við gætum tikkað í box“
Aðspurð um framhald verkefnisins segir Halldóra að sótt hafi verið aftur um í Sprotasjóð og 1.6 milljón króna styrkur fengist fyrir næsta skólaár, auk þess sem Erasmus+ styrkurinn var til tveggja ára.

„Við erum búin að komast að því að innleiðing á hugmyndafræði Cittaslow er langhlaup. Við héldum fyrst að við gætum tikkað í box og sagt svo eftir tvö ár að við værum búin og gætum þá farið að snúa okkur að einhverju öðru. Það er alls ekki þannig því við ætlum að verða Cittaslow, við ætlum að hlúa að sérstöðu okkar sem skóla og samfélags, við ætlum að fagna fjölbreytileikanum í öllum sínum myndum og við ætlum að bera virðingu fyrir sjálfum okkur eins og okkur er frekast unnt. Þannig aukum við lífsgæði okkar og annarra og þannig náum við hæglætinu sem felst í því að lifa og njóta.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.