Skiptir fyrirtækin að vera jákvæð gagnvart starfsnemum

Fyrirtæki á Fljótsdalshéraði voru meðal þeirra sem nýverið tóku þátt í evrópska fyrirmyndardeginum þar sem fyrirtæki og stofnanir bjóða atvinnuleitendum með skerta starfsgetu til sín hluta úr degi. Verslunarrekandi segir að fyrirtæki verði að vera jákvæð gagnvart þjálfun starfsmanna.

„Það skitir fyrirtækin máli að vera jákvæð fyrir því að taka á móti og hafa starfsnema. Þannig kynnast þau mögulegum framtíðarstarfsmönnum og taka þátt í að þjálfa upp nýtt fólk og veita því innsýn í nýja hluti,“ segir Lára Vilbergsdóttir í Húsi handanna.

Sjö fyrirtæki tóku þátt í verkefninu að þessu sinni og fengu til sín nemendur af starfsmennabraut Menntaskólans á Egilsstöðum. Aðalheiður Ósk Kristjánsdóttir var í Húsi handanna.

„Við fengum fyrirtæki á okkar áhugasviðum. Mér bauðst að velja að koma hingað eða fara í AB varahluti því ég hef svo mikinn áhuga á bílum. Ég valdi frekar að koma hingað því ég er mjög listræn í mér,“ segir hún.

Fyrirmyndin að deginum kemur frá Atvinnu með stuðningi á Írlandi en þar hefur Job shadow dagurinn verið haldinn frá árinu 2008 og hefur verkefnið opnað möguleika fatlaðs fólks til fjölbreyttari atvinnuþátttöku.

Með deginum fá atvinnuleitendur tækifæri á að kynna sér fjölbreytt starfsumhverfi og forsvarsmenn fyrirtækja fá að kynnast styrkleikum hvers þátttakanda. Hérlendis er það Vinnumálastofnun sem heldur utan um daginn.

Aðalheiður var ánægð með daginn þótt hann væri stuttur og þar með takmarkaður. „Það er búið að vera mjög gaman og ég hef séð marga flotta hluti hér sem ég hefði helst viljað hanna sjálf. Það er alltaf vinnustaðanám í skólanum og þá fæ ég kannski að koma aftur hingað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.