Sinfóníuhljómsveit Austurlands frumflytur nýtt verk eftir Charles Ross

Sinfóníuhljómsveit Austurlands frumflytur á sunnudag nýtt tónverk -forStargazer- eftir dr. Charles Ross í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Hefð er að myndast fyrir því að sveitin fái austfirsk tónskáld til að semja sérstaklega fyrir sig verk.

„Þetta er eins og að horfa á ótrúlega bíómynd með mögnuðum tæknibrellum sem gerist í geimnum en þú heyrir bara tónlistina,“ segir Charles um þetta verk sitt.

Hljómsveitin var stofnuð árið 2018 og hélt sína fyrstu tónleika síðla það árs. Henni hefur frá upphafi verið ætlað að stuðla að austfirskri tónlistarsköpun, meðal annars með að fá verk frá austfirskum tónskáldum.

Tvö ár eru síðan hið fyrsta var flutt, Rót eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur og nú er röðin komin að verki Charles. „Þetta er stórglæsilegt verk sem kallar á alls konar hljóðfæri, svo sem slagverks- og blásturshljóðfæri,“ segir Sóley Þrastardóttir sem leiðir sveitina.

Rúmlega 40 hljóðfæraleikarar


Þrjú ár eru síðan sveitin óskaði eftir verkinu frá Charles, en mikil vinna er að baki að semja, útsetja, skrifa nótur og loks æfa verkið. Í sveitinni að þessu sinni verða 42 hljóðfæraleikarar auk sex manna spunahóps.

Charles er vel þekktur úr austfirsku tónlistarlífi, hafandi kennt tónlist víða um fjórðunginn í áratugi. Tíu ár eru síðan hann lauk doktorsgráðu í tónsmíðum frá háskólanum í Glasgow.

Sveitin hefur þegar pantað verk eftir næsta austfirska tónskáld, Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur. Stefnt er að það verði frumflutt á næsta ári.

Auk verks Charles mun sveitin á sunnudag flytja Sjöundu sinfóníu þýska tónskáldsins Ludwigs van Beethovens. „Hún er ein af vinsælustu sinfóníum allra tíma, skemmtilegt og aðgengilegt verk sem fólk hefur ánægju af.“

Tónleikarnir hefjast í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði klukkan 16:00 á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.