Seyðfirsk verðlaunamynd um ævi Birgis Andréssonar

Blindrahundur, heimildamynd um myndlistarmanninn Birgi Andrésson, verður sýnd í Herðubreið á Seyðisfirði um helgina. Birgir átti hús þar í bænum og kvikmyndagerðarfólkið hefur búið þar undanfarin ár.

Myndin var frumsýnd í vor á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði þar sem hún fékk verðlaun áhorfenda og dómara. Hún var síðan sýnd í Bíó Paradís fyrr í mánuðinum en er nú í fyrsta sinn sýnd á Austurlandi.

Birgir opnaði sýningu í loks árs í Skaftfelli ásamt ljósmyndaranum Magnúsi Reyni með myndum af öllum fossunum átján í Fjarðaránni. Birgir heillaðist af Seyðisfirði og keypti þar húsið Hól þar sem hann dvaldist af og til þar til hann lést árið 2007. Um borð í Norrænu má einnig finna tólf stór og vegleg málverk eftir Birgi.

Að myndinni standa Tinna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Skaftfells og eiginmaður hennar Kristján Loðmfjörð en þau hafa búið á Seyðisfirði í sex ár. Þau dvöldust meðan annars í Hól um tíma, sem þá var orðin gestavinnustofa Skaftfells, við að taka upp efni í myndina áður en þau ákváðu að flytja austur á Seyðisfjörð.

Tinna kemur úr Vestmannaeyjum líkt og Birgir. „Það snerti taugar. Ég var forvitinn um hann því það eru ekki margir myndlistarmenn úr Vestmannaeyjum sem hafa náð langt,“ segir Tinna.

Kristján kynntist Birgi þegar hann var í námi og gerði um hann stutta mynd sem hluta af sinni námi. Þótt sú mynd sé ekki notuð í Blindrahundi varð hún samt kveikja að því að þau réðust í að gera stóru myndina.

Vinna við Blindrahund hófst árið 2008 og stóð í níu ár. „Við höfum unnið hana samhliða öðrum verkum. Eftir hrunið varð styrkjaumhverfið mun erfiðra og það hægði á ferlinu. Í lokin fengum við samt góðan stuðning að austan til að klára hana,“ segir Tinna.

Heitið Blindrahundur vísar í uppvöxt Birgis. Faðir hans var blindur og eftir að móðir hans lést, þegar Birgir var aðeins þriggja ára, fluttu feðgarnir til Reykjavíkur og bjuggu í Blindraheimilinu. Þar eignaðist Birgir stjúpmóður sem einnig var blind. Birgir var því sá eini á heimilinu með fulla sjón svo í æsku og á unglingsárum lýsti hann hlutunum fyrir fólkinu í kringum sig og vísaði veginn.

Það hafði síðan áhrif á listsköpun hans. „Birgir var skemmtilegur maður sem gerði skemmtileg listaverk,“ segir Tinna.

Myndin verður sýnd á morgun laugardag klukkan 20:00 og á sunnudag klukkan 17:00 með enskum texta. Aðgangur er ókeypis.

Að lokinni sýningunum eystra er vonast til að myndin fari á erlendar heimildamyndahátíðir. „Það var skemmtilegt að fá viðbrögðin sem við fengum á Skjaldborg, sem er virkilega áhugaverð hátíð. Maður finnur að maður hefur staðið sig vel og hjálpar til við að sækja um pláss á hátíðum erlendis. Ef hún kemst þar inn gæti líftími hennar í sýningum orðið tvö ár,“ segir Tinna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.