Sannleiksnefnd skipuð til að fara yfir myndband Hjartar Kjerúlf af Lagarfljótsorminum

hjortur_kjerulf.jpg

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur skipað þrettán manna sannleiksnefnd til að leggja mat á hvort myndband Hjartar Kjerúlf af Lagarfljótsorminum sýni í raun og veru orminn. Ástæðan er ósk Hjartar um verðlaunafé sem bæjarstjórn Egilsstaða hét fyrir fimmtán árum hverjum þeim sem næði mynd af orminum.

 

Það var árið 1997 sem bæjarstjórn Egilsstaða, sem voru þá sjálfstætt sveitarfélag, stóð fyrir samkeppni þar sem heitið var hálfrar milljónar króna verðlaunum fyrir mynd af Lagarfljótsorminum. Engin mynd barst í keppnina sem þótt hægt að staðfesta að væri af orminum. 

Bæjarstjórnin samþykkti hins vegar að ef einhvern tíman kæmi fram slík mynd mætti vitja verðlaunanna. Á það lét Hjörtur, bóndi á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal, með bréfi til bæjarstjórnarinnar seinni part júlí.

Heimsfrægt myndband

„Undirrituðum hefur borist til eyrna að sveitarfélagið Egilsstaðir hafi fyrr á öldum gert samþykkt í þá veru verðlauna skyldi hvern þann sem fest gæti Lagarfljótsorminn á mynd um kr. 500.000. Undirrituðum eru ljósar verðlagsbreytingar síðan ákvörðun sveitarfélagsins um verðlaunin var samþykkt. Undirritaður getur þó vel komist af án þess að gerast aurasál á efri árum,“ skrifar Hjörtur.

Hann komst í heimsfréttirnar í vetur þegar hann tók myndband og setti á YouTube sem hann segir sýna orminn svamla í Jökulsá í Fljótsdal neðan við Hrafnkelsstaði. Það hlaut mikla athygli og hafa um fimm milljónir manna horft á það þar. Erlendir fréttamenn hafa heimsótt Hjört og kvikmyndatökulið leitað ormsins.

Bæjarstjórnin efast ekki um tilvist ormsins

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs tók erindi Hjartar fyrir á fundi sínum í kvöld. Í bókun hennar segir að engin ástæða sé til að „efast um heilindi og flekklausan karakter bréfritara“ auk þess sem ítrekað er að bæjarstjórnin efist „ekki eitt augnablik um tilvist ormsins í Lagarfljóti.“

„En sem vörslumönnum opinbers fjár telur bæjarstjórn sér þó ekki fært að samþykkja að greiða út verðlaunaféð án þess að málið fái vandaða og ítarlega meðferð á vettvangi stjórnsýslunnar. Því samþykkir bæjarstjórn að skipa sannleiksnefnd sem falið verði að leggja mat á hvort óyggjandi sé að myndefni það sem bréfritari vísar til sýni alveg örugglega Lagarfljótsorminn sjálfan.“

Í nefndinni verða þrettán einstaklingar „sem á grundvelli stöðu sinnar og sérþekkingar hvert á sínu sviði taki afstöðu til myndefnisins og skili áliti sínu til bæjarstjórnar. Í ljósi umfangs verkefnisins telur bæjarstjórn hæfilegt að veita nefndinni frest til loka yfirstandandi kjörtímabils til að ljúka störfum. Starf nefndarinnar er ólaunað.“

Eftirfarandi skipa nefndina:

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar og lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun, formaður.
Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs og ábúandi við fljótið
Sigrún Blöndal, bæjarfulltrúi og áhugamaður um Lagarfljótsorminn
Katla Steinsson, bæjarfulltrúi og ferðamálafrömuður
Skúli Björn Gunnarsson, íslenskufræðingur og forstöðumaður Gunnarsstofnunar
Skarphéðinn Þórisson, náttúrufræðingur og ljósmyndari
Hlynur Gauti Sigurðsson,landlagsarkitekt, borgarskógfræðingur og myndatökumaður
Rán Þórarinsdóttir, líffræðingur
Magnús Skarphéðinsson, skólastjóri og sérfræðingur í dulrænum fyrirbærum
Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir, þjóðfræðingur og ljósmyndari
Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur á Valþjófsstað
Valdimar Gunnarsson, formaður félags áhugamanna um skrímslasetur
Jónína Rós Guðmundsdóttir, alþingismaður
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.