Árni Þorsteinsson Austfirðingur ársins

arni_thorsteinsson_austfirdingur2012_web.jpg
Lesendur Austurfréttar völdu Norðfirðinginn Árna Þorsteinsson Austfirðingar ársins 2012. Í nýjustu bókinni í Útkallsflokknum segir frá snjóflóðunum í Neskaupstað árið 1974 en Árni komst lífs úr þeim eftir að hafa verið grafinn undir snjónum í tuttugu tíma. 

„Ég vil tileinka þessi verðlaun öllum þeim sem komu fram í bókinni og sögðu sögu sína í henni. Mér finnst þeir eiga þessi verðlaun með mér. Ég vil líka þakka Óttari Sveinssyni, höfundi bókarinnar, fyrir vönduð vinnubrögð. Það er mikils virði að hafa tekið allar þessar frásagnir saman á einum stað,“ sagði Árni þegar hann fékk viðurkenninguna afhenta í dag.

Hann hefur meira og minna alla tíð búið í Neskaupstað og starfar í dag sem umsjónarmaður heimavistar Verkmenntaskólans. Hann var við vinnu í frystihúsi Síldarvinnslunnar hinn örlíka desemberdag árið 1974 þegar flóðið skall á húsinu. Árni grófst ofan í litlum brunni undir veggbroti og fimm metra þykkum snjó. Hann bjargaðist eftir tuttugu tíma veru þar.

Árni hefur áður sagt sögu sína, meðal annars í viðtali við franska sjónvarpsstöð. Margar aðrar frásagnir í bókinni hafa hins vegar aldrei verið sagðar áður. Hann segist hafa fengið sterk og góð viðbrögð við bókinni. Margir hafi komið að máli við hann og rætt hana við hann eftir að hún kom út fyrir jólin. 
 
Árni fékk nokkuð afgerandi kosningu, 28% atkvæða en í öðru sæti varð Hera Ármannsdóttir, Egilsstöðum með 20%. Rúmlega 760 atkvæði bárust í kjörinu sem stóð í viku. Fyrir nafnbótina fékk Árni viðurkenningarskjal frá Austurfrétt og gjafakort frá Gistihúsinu á Egilsstöðum í kvöldverð fyrir tvo.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.