Rafn Heiðdal: Þetta orð krabbamein - þetta er svo alvarlegt orð

rafn_heiddal_web.jpg
Rafn Heiðdal þurfti að hætta knattspyrnuiðkun 23ja ára gamall þegar hann greindist með krabbamein. Meðferðin tók á hann andlega og líkamlega en hann segist í dag hafa lært að meta að hafa fengið annað tækifæri. Reynslan hefur breytt honum og hann segist leggja áherslu á að geta látið gott af sér leiða.

Rafn segir sögu sína í nýjasta hefti Snæfells, tímarits UÍA. Rafn spilaði með Neisti, Hetti og loks fjóra leiki með Fjarðabyggð sumarið 2010. Vaxandi sársauki hafði gert vart við sig um veturinn en Rafn taldi um nárameiðsli væri að ræða. Hann píndi sig í gegnum æfingar. „Ég vildi ekki fá það orð á mig að ég væri latur.“

Á þjóðhátíðardaginn hringdi hann út lækni sem fann „þykkildi.“ Rafn var strax sendur til Reykjavíkur í frekari rannsóknir. „Þegar myndatakan var búin og við vorum að keyra í burtu af bílastæðinu hringdi starfsfólkið aftur í mig. Þá vissi maður að það væri einhver djöfullinn að, eitthvað alvarlegt.“

Enginn tvítugur á von á að fá krabbamein 
 
Þegar myndirnar höfðu verið skoðaðar var ljóst að um krabbamein væri að ræða. Æxlið var illkynja og hafði vaxið út frá lífbeiningu. sentímetrar á lengd, sjö á þykkt og 300 millilítrar í rúmmál, sennilega um tíu mánaða gamalt. Sársaukinn stafaði af því að það hafði ýtt innyflum, blöðru og þörmum til hliðar. Rafn þvældist á milli lækna á spítalanum sem gerðu honum enn frekar grein fyrir alvarleika málsins.

„Þeir vissu ekki hvort æxlið hefði bitið sig fast við innyflin, en þeir gerðu ráð fyrir að það væri búið að festa sig við lærtaugarnar þrjár því verkurinn kom frá þeim. Á einum fundinum var mér sagt að það þyrfti að taka fótinn af mér við mjöðmina, því hún væri dauð þegar búið væri að klippa á taugarnar. Sama átti við taugarnar niður í kynfærin...það hefði þýtt að þau væru dauð líka.

Þarna gerði ég mér í alvörunni grein fyrir hvað væri að gerast og þá kom sjokkið. Ég man ég fylltist gífurlegri reiði, að þetta skyldi koma fyrir mig. Það á enginn rúmlega tvítugur von á að fá krabbamein. Þessi reiði fór aldrei, hún var í mér í heilt ár. Ég man að ég fór af fundinum, læsti mig strax af inni á klósetti og fór að gráta.

Þetta var mjög erfiður tími. Þetta orð: „krabbamein“ – þetta er svo alvarlegt orð. Ég vissi ekkert hvað ég myndi gera, sá bara fyrir mér að ég myndi missa hárið og svo framvegis.“
 
Ég varð bara veikari og veikari 
 
Rafn fór strax í lyfjameðferð því minnka þurfti æxlið þannig að hægt væri að skera það. Það gekk vel og Rafn fór til Svíþjóðar um haustið í aðgerð. Hún gekk vel. Fjarlægja þurfti eina taug og lífbeinið, öðru hélt Rafn. 

Erfiðar meðferðir tóku við til að drepa meinið. Lyfjameðferð, geislameðferð og loks stofnfrumumeðferð. Veikindin tóku gríðarlega á líkamlega og ekki síður andlega. „Ég var ekkert ég sjálfur. Ég varð bara veikari og veikari. Ég lokaði mig af og vildi ekki að fólk hitti mig.“

Eftir krabbameinsmeðferðina tókst Rafn á við alkóhólisma. Hann viðurkennir að hafa drukkið illa á framhaldsskólaárunum og eftir þau, auk þess að fikta við fíkniefni en meðferð við morfínfíkn fylgdi krabbameinsmeðferðinni.

Rafn segir að vandamálið hefði ekki orðið svona „alvarlegt strax“ hefði hann ekki veikst. Hann hefði samt alltaf þurft að takast á við það. „Ég hefði kannski fúnkerað, en ég hefði alltaf þurft að hætta.“
 
Þarf að einbeita mér að því að vera edrú 
 
Í dag tekur hann hvern dag fyrir í einu. „Ég þarf að einbeita mér að því að vera edrú og læra á lífið. Ég missti alla hæfileika til að vita hvernig ætti að lifa, en í dag gengur mér rosalega vel. 

Það sem er næst á dagskrá hjá mér er að komast í betra líkamlegt form, fara að lyfta og einbeita mér að því að vera edrú. Í raun er ég ekki að gera neitt annað en það. Ég tel það vera nóg. Ég geri ekkert ef ég er ekki edrú.“

Vil vera besta útgáfan af sjálfum mér 
 
Hann hefur tekist á við reiðina sem fylgdi veikindum. „Ég sé lífið í allt öðru ljósi. Ég man eftir því þegar ég taldi mig ekkert hafa grætt á veikindunum. Viðhorfið er allt annað í dag. Það eru ekki allir svo heppnir að fá að halda öllu því sem ég hélt. Þetta hefði alveg getað farið miklu verr.

Það er alveg ástæða fyrir að ég tók mig á. Ég vil vera besta útgáfan af sjálfum mér. Ég mun alltaf leitast eftir því það sem eftir er af lífinu. Ég vil hjálpa öðrum þegar ég get. 

Ég lifi bara fyrir einn dag í einu. Ég gerði mistökin. Ég lifði sex mánuði fram í tímann en lærði að ég get það ekki. Ég þakka fyrir að fá þetta annað tækifæri sem ég hélt að ég fengi ekki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.