Opnun minjasvæðis á Skriðuklaustri og 500 ár frá vígslu klausturkirkju

klaustur_lokafragangur_web.jpg

Um helgina 18.-19. ágúst verður Skriðuklausturshátíð í Fljótsdal. Tilefnið er ærið því að lokið er tíu ára rannsókn á rústum hins forna Ágústínusarklausturs sem þar stóð á 16. öld. 

 

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, mun opna fullfrágengið minjasvæði á þessum tímamótum sem markast einnig af þeim 500 árum sem liðin eru frá því Stefán Jónsson Skálholtsbiskup vígði klausturkirkjuna. Guðsþjónusta verður í rústum kirkjunnar og þar mun biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, prédika. 

Um helgina kemur einnig út bók um rannsóknina á klaustrinu að Skriðu eftir dr. Steinunni Kristjánsdóttur og haldið verður opið málþing í Végarði í Fljótsdal.

Uppgreftri Ágústínusarklausturs á Skriðuklaustri í Fljótsdal sem starfrækt  var 1493-1554 lauk síðasta sumar. Um er að ræða einhverja umfangsmestu fornleifarannsókn síðari ára en hún hófst árið 2002 með framlögum Kristnihátíðarsjóðs. 

Í ár hefur verið unnið að frágangi minjasvæðisins og sunnudaginn 19. ágúst nk. verður það opnað formlega af mennta- og menningarmálaráðherra. Í samráði við Fornleifavernd ríkisins hafa grunnform klausturbygginga og kirkju verið hlaðin upp og búið er að tyrfa veggi og umhverfi þannig að hægt er að feta í fótspor þeirra sem dvöldu í klaustrinu á 16. öld. Þá hefur verið komið fyrir útsýnispalli fyrir ofan svæðið með fræðsluskiltum.

Dagskrá hátíðarinnar er sem hér segir: Laugardaginn 18. ágúst verður opið málþing í Végarði kl. 13-16 þar sem dr. Steinunn Kristjánsdóttir, sem stýrt hefur rannsókninni frá upphafi, mun flytja erindi ásamt dr. Hjalta Hugasyni, dr. Vilborgu Auði Ísleifsdóttur, Hrönn Konráðsdóttur og Margréti Gestsdóttur. Málþingið er öllum opið og munu forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins og þjóðminjavörður sitja í pallborði með fyrirlesurum. 

Sunnudaginn 19. ágúst, sem jafnframt er Fljótsdalsdagur í Héraðshátíðinni Ormsteiti, hefst dagskrá með morgungöngu kl. 10 frá Víðivöllum í Skriðuklaustur í minningu Sesselju Þorsteinsdóttur sem gaf jörðina Skriðu undir klaustur. Eftir hádegi, kl. 13.30 verður síðan hátíðardagskrá á Skriðuklaustri þar sem mennta- og menningarmálaráðherra mun opna minjasvæðið og síðan verður guðsþjónusta við rústirnar og mun biskup Íslands prédika.

Hefðbundin dagskrá Fljótsdalsdags tekur síðan við hjá Gunnarshúsi með tónleikum Ásgeirs Trausta og Þristarleikum þar sem meal annars er keppt í rababarakasti og fjárdrætti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.