Ólafur Hr. Sigurðsson kjörinn Austfirðingur ársins

Ólafur Hr. Sigurðsson, íbúi á Seyðisfirði, hefur verið valinn Austfirðingur ársins af lesendum Austurfréttar/Austurgluggans. Ólafur lét til sín taka í umræðu um sjálfsvíg á síðasta ári eftir að sonur hans féll fyrir eigin hendi.

„Ég er þakklátur fyrir viðurkenninguna þótt tilefnið gæti ekki verið mikið ömurlegra,“ segir Ólafur. Sonur hans Bjarni Jóhannes tók eigið líf þann 19. apríl og í kjölfarið fór Ólafur að vekja athygli á geðheilbrigðismálum og sjálfvígum.

Hann og kona hans, Kolbrún Lára Vilhelmsdóttir, stóðu í byrjun maí fyrir göngu með Pieta-samtökunum á Seyðisfirði, en það eru samtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Gengið var á nokkrum stöðum á landinu en markmið göngunnar er að minnast þeirra sem tekið hafa sitt eigið líf, að gefa von og að hvetja til opinnar umræðu um sjálfsvígshættuna. „Við fengum gríðarlega góð viðbrögð og það gengu hátt í 100 manns með okkur,“ segir Ólafur.

Hann hélt erindi á alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga í Egilsstaðakirkju í september og skrifaði síðan þrjár greinar sem birtust í Austurglugganum og á Austurfrétt. Í greinunum gerði Ólafur bæði grein fyrir tilfinningum sínum sem foreldri sem missir barn sitt fyrir eigin hendi og ræddi stöðuna í geðheilbrigðismálum á Íslandi. Meðal annars hvatti hann til þess að sjálfsvíg yrðu rannsökuð líkt og umferðarslys með það að markmiði að fækka þeim.

Greinunum var deilt víða og var Ólafur boðaður í fleiri fjölmiðlaviðtöl, til dæmis hjá RÚV og X-inu, í kjölfar þeirra. „Skrif mín hafa greinilega vakið mikla athygli og mér finnst ánægjulegt að sjá viðbrögð við þeim. Viðbrögðin hafa fyrst og fremst verið fólgin í upphringingum auk þess sem ég hitti fólk á förnum vegi. Allir þeir sem minnast á greinarnar þakka fyrir þær og telja umræðuna gríðarlega þarfa.“

Ólafur sendi meðal annars nýjum ráðherra heilbrigðismála, Svandísi Svavarsdóttur, afrit af greinunum. „Ég fékk mjög góðar viðtökur hjá henni og gott bréf til baka.“

Hann segist þó ekki hafa hugað að frekari eftirfylgni með greinunum í bili. „Mér finnst ég hafa gert nóg í bili. Það er spurning hvað maður treystir sér í. Ég er þó til í umræðu um þessi mál hvar og hvenær sem er og tel mig hafa talsvert til þeirra að leggja.“

Lesendur netmiðilsins Austurfréttar kusu á milli ellefu einstaklinga og hópa og fékk Ólafur mjög góða kosningu. Staðið hefur verið fyrir kjörinu árlega frá 2012. Að launum fékk Ólafur viðurkenningarskjal, gjafabréf í gistingu, mat og spa frá Gistihúsinu á Egilsstöðum, bókina Hesta eftir Pétur Behrens frá Bókstaf og árs áskrift að Austurglugganum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.