Óður til seyðfirska tyggigúmmísins Báru

„Ég ákvað því að framleiða mitt eigið tyggjó með því að endurpakka Trident-tyggjói sem ég skírði einmitt Tyggið íslenskt,“ segir Sigrún Gyða Sveinsdóttir, útskriftanemandi Listaháskóla Íslands, sem dvaldi ásamt bekkjarfélögum sínum á Seyðisfirði fyrir stuttu.



Útskriftarnemar myndlistardeildar Listaháskóla Íslands dvöldu á Seyðisfirði tvær vikur í janúar þar sem þeir unnu undir hatti Dieter Roth Akademíunnar og Skaftfells, myndlistarmiðstöðvar Austurlands.

Verkefnin eru af ýmsum toga og sum þeirra tengjast Seyðisfirði á einhvern hátt. Einn nemandi myndaði flesta hunda bæjarins, annar framleiddi tyggjóumbúðir innblásnar af sögu bæjarsins og sá þriðji samdi lag fyrir flautu út frá fjallahringnum og flutti það úti á sjó.

Bára tyggjó

Bára tyggjó2
Ákvað að framleiða sitt eigið tyggjó

Sigrún Gyða Sveinsdóttir nýtti tímann eystra til þess að hanna tyggjóumbúðir, innblásnar af sögunni um tyggigúmmíið Báru sem pakkað var á Seyðisfirði um tíma.

„Já, ég hef semsagt verið að vinna út frá sögunni um seyðfirska tyggigúmmíið Báru sem framleitt var frá árinu 1936 og eitthvað fram yfir síðari heimsstyrjöldina. Ég heyrði fyrst af þessu þegar ég var starfsmaður á Grund og kona héðan frá Seyðisfirði hafði unnið við að pakka þessu tyggjói sem var sent erlendis frá. Mér þótti þetta svo áhugavert að ég ákvað að kynna mér þetta frekar og vinna með hugmyndina á þessum tveimur vikum hér.“

Sigrún Gyða segir að sagan sé á þá leið að starfsfólk Bárunnar fékk sendar tyggjóplötur erlendis frá sem það svo velti upp úr piparmyntudufti og úðaði með gljáa. Því var svo pakkað í umbúðir merktar Báran tyggigúmmi og á pakkanum stóð „tyggið íslenskt“ og þau voru með einkaleyfi á vörunni.“

„Ég reyndi að setja mig í þessi spor, hvernig það væri að vera að framleiða eitthvað sem kemur annars staðar frá og kynna það samt sem íslenska vöru.

Þrátt fyrir að snúa þessu upp í háð var ég um leið að upphefja þessa merkilegu sögu sem ekki svo margir vita af,“ segir Sigrún Gyða, en hluti af verkinu hennar var að syngja óð til tyggjósins en hún er einnig að læra klassískan söng.

Dvölinni lauk svo með sýningunni Koma í Skaftfelli, en hún stendur til 2. apríl.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.