Nátttröll á kreiki í Hjaltastaðarþinghá

natttroll_hjaltastadathingha_web.jpg

Fáar heimildir eru til um tröll á Austurlandi segir bóndi í Hjaltastaðarþinghá sem myndað hefur nátttröll í sveitinni. Hugmyndir eru að bjóða upp á leiðsögn um tröllaslóðir þar. Farið var yfir tröllasögur frá ýmsum sjónarhornum í kvölddagskrá í Hjaltalundi um síðustu helgi. 
 
Haft er fyrir satt að kyni tröllkarla hafi verið tekið að hnigna þegar á 16. öld en tröllskessur hafi ekki orðið útdauðar fyrr en á þeirri 19. og þannig sýnt töluvert meiri þrjósku og dug en karlkynið.
 
Því kannski viðeigandi að það voru einkum konur sem stóðu fyrir bráðskemmtilegri kvölddagskrá síðastliðinn laugardag í félagsheimilinu Hjaltalundi þar sem nátttröll voru þema og umfjöllunarefni. Rúmlega þrjátíu gestir áttu þarna notalega kvöldstund í rökkrinu í gamla félagsheimilinu og hlýddu á bæði söng og laust og bundið mál. 
 
Það var Sólveig Björnsdóttir bóndi í Laufási sem hafði frumkvæði að tröllakvöldinu í Hjaltalundi. Veggina prýddu ljósmyndir sem hún hefur tekið á ferðum um sveitina og sýna ýmis nátttröll sem dagað hafa uppi víða í landslaginu. 

Þessu til viðbótar samdi Sólveig einnig bæði sögur og ljóð um örlög þessara trölla sem flutt voru sem hluti dagskrárinnar. Áslaug Sigurgestsdóttir kvað og söng ásamt Freyju Jónsdóttur, meðal annars lög við kvæði Jóhannesar úr Kötlum. 

Sigþrúður Sigurðardóttir flutti frumsamda tröllasögu, Daldís Ingvarsdóttir og Arndís Þorvaldsdóttir, sem var kynnir kvöldsins, lásu upp sögur úr þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og einnig var lesið úr minningum Guðrúnar Sigurðardóttur frá Hvannstóði í Borgarfirði um trölla og jólasveinatrú í æsku hennar. 

Sólveigu hafa tröll og aðrar vættir verið hugleikin um langt skeið. „Ég er fædd og uppalin á Borgarfirði eystra, þar sem er mikil vættatrú, svo að líklega hef ég fengið þetta beint í æð. Að minnsta kosti hef ég alltaf séð allskonar myndir í steinum og klettum. 

Fyrir nokkrum árum fór ég svo að prófa að taka myndir af andlitum í steinum og athuga hvort aðrir sæju það sama og ég. Í sumar labbaði ég um víða og tók fullt af myndum, af nátttröllum sem höfðu orðið of sein í helli sinn undan dagsbirtunni og orðið að steini, eins og sögurnar sega. Í framhaldi af því langaði mig að gera eitthvað með afraksturinn. 

Mér fannst alltaf tröllin og sögur tengdar þeim falla svolítið í skuggann svo ég fór að leita að gömlum sögnum og þjóðsögum. Ég fann reyndar ekki mikið efni tengt Austurlandi en með góðra hjálp var ég tilbúin með dagskrá og myndir fyrir Daga myrkurs í nóvember s.l. en þá setti veðrið strik í reikninginn svo að úr varð að gera þetta núna.“

Til stendur að vinna meira með þetta efni í Hjaltastaðarþinghá á næstunni. Næsta sumar er hugmyndin bjóða upp á gönguferðir með leiðsögn á tröllaslóðir og mögulega verður dagskráin sett upp á ný með haustinu.

Mynd/Sólveig Björnsdóttir: Þessi vígalega tröllkerling hefur orðið of sein í helli sinn fyrir margt löngu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.