Nýtt fæðingarrúm á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað

faedingarrum_fsn_jan13.jpg
Nýtt fæðingarrúm hefur verið tekið í notkun á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað í stað eldra rúms sem komið var til ára sinna og úr sér gengið. Ljósmóðir segir að töluverð orka hafi varið í að hemja gamla rúmið í mestu látunum.

Nokkrir velunnarar sjúkrahússins lögðu til fé til kaupa á nýju rúmi af bestu gerð, þar á meðal Alcoa Fjarðaál og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað. Það var svo íþróttakonan Harpa Vilbergsdóttirr sem sl. sumar safnaði áheitum til styrktar fæðingardeildinni með þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu, sem gerði sjúkrahúsinu endanlega kleift að ráðast í kaupin á rúminu. 

Jónína Salný Guðmundsdóttir, ljósmóðir á Fjórðungssjúkrahúsinu, segir að mikil ánægja sé með nýja rúmið enda hafi það gamla m.a. verið orðið bremsulaust og stirt í notkun. 

„Það var farið að fara talsverð orka í það í fæðingum að hemja rúmið og við vorum löngu hætt að fá í það varahluti,“ segir Salný, sem tekur fram að nýja rúmið sé með góðum bremsum, lipurt og þægilegt í notkun og að sjálfsögðu með rafmagni og öllum helstu þægindum.

Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað fæddu 78 konur barn á nýliðnu ári, 38 drengi og 40 stúlkur. Konurnar komu víða að af Austurlandi til að fæða í Neskaupstað, m.a. frá Fjarðabyggð, Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði, Borgarfirði og Djúpavogi. Salný segir að árið 2013 stefni í að verða þokkalega líflegt því nú þegar séu þrjú börn fædd á deildinni.

Mynd: Fæðingarrúmið, sem velunnarar Fjórðungssjúkrahússins gáfu, er komið í notkun. Einn fyrsti notandi þess var Tenna Elisabet Magnúsdóttir, sem fæddi stúlku skömmu fyrir jól. Að baki mæðgunum á myndinni standa báðar ömmur barnsins, Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls og Hanna Sigga Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur. T.v. er Oddný Ösp Gísladóttir ljósmóðir. Myndina tók nýbakaður faðir, Eirikur Simonsen.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.