„Næst því að vera hið fullkomna kvöld“

Hlaðan í Seljateigi við Reyðarfjörð var þétt setin í gærkvöldi þegar um 130 manns hlýddu á listamanninn KK á styrktartónleikum Krabbameinsfélags Austfjarða.



„Ég á svo mikið af góðu fólki í kringum mig sem hjálpar mér með þær fjölmörgu vitlausu hugmyndir sem ég fæ,“ segir Jóhann Sæberg, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða.

Jóhann fékk tónlistarmanninn Bjartmar Guðlaugsson til að vera með sambærilega tónleika í hlöðinni fyrir nokkrum árum.

„Mig langaði til þess að gera þetta aftur og þá að fá KK. Af því ég þekki hann nú ekki neitt fékk ég til liðs við mig menn sem þekkja hann og hann var tilbúinn til þess að koma og gera þetta okkur að kotsnaðarlausu, en þetta er miklu skemmtilegri fjáröflunarleið en að ganga í hús og selja merki,“ segir Jóhann.

Jóhann segir bæði mætingu og kvöldið allt hafa farið fram úr allra björtustu vonum.

„Þetta var bara næst því að vera hið fullkomna kvöld, alveg meiriháttar gaman allt saman. Áhorfendahópurinn var alveg magnaður og allir virtust vera þarna komnir til að njóta augnabliksins og ég er viss um að þetta gerði daginn betri hjá öllum.“

Jóhann segist ekki þora að lofa neinu með framhaldið. „Ég er virkilega glaður og hrærður yfir þessu og án þess að lofa neinu þykir mér trúlegt að ég eigi eftir að fá fleiri hugmyndir sem gaman væri að hrinda í framkvæmd.“

Alls söfnuðust 384.500 krónur á tónleikunum.

Ljósmynd: Guðmundur Gíslason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.