„Mér varð mjög kalt eftir að ég sprengdi úlpuna mína“

nikulas_stefan_nikulasson_trarappa.jpg
Eitt athyglisverðasta verkið á sýningunni Trarappa í Skaftfelli á Seyðisfirði er tætt úlpa Nikulásar Stefáns Nikulássonar sem hann sprengdi í loft upp. Hann segist hafa viljað kveðja úlpuna, sem komin var á síðasta snúning, með því að gera hana á listaverki.

Sýningargestir kippast við þegar þeir heyra skothvellinn. Út í horni sýningarsalarins gengur myndskeið þar sem ungur maður miðar hagabyssu á jörðina. 

Skyndilega kveður við sprenging og upp úr jörðinni þyrlast fjaðrir og fatatætlur. Neðan við myndina liggur reifið af því sem eitt sinn var dúnúlpa.

Úlpan er persónueinkenni

„Ég kom austur í úlpu sem var gjörsamlega að springa og ákvað að hjálpa henni,“ segir Nikulás Stefán. Hann tilheyrir hópi útskriftarnema úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands sem fyrir skemmstu dvöldu í tvær vikur á Seyðisfirði.

„Úlpur eru mikið persónueinkenni á mönnum og mig langaði að breyta til,“ svarar hann þegar hann er spurður út í hugmyndina á bakvið verkið.

Dýnamítið virkaði best

Hann fékk til liðs við sig Vilhjálm Konráðsson og saman prófuðu þeir nokkur mismunandi sprengiefni. „Galdramaður segir aldrei frá því hvernig hann gerir galdurinn,“ segir Nikulás þegar hann er inntur eftir aðferðinni á bakvið sprenginguna.

Hann og Vilhjálmur gerður tilraunir með því að sprengja teppi svo voru álíka þung og úlpan. Niðurstaðan var að sprenging með dýnamíti væri það sem kæmi best út sjónrænt.

Frostið kom þegar úlpan var sprengd

En það að sprengja úlpuna sína um hávetur er ekki það skynsamlegasta sem menn gera. Þótt almennt hafi verið hlýtt meðan listnemarnir dvöldu á Seyðisfirði kom frostið á versta tíma fyrir Nikulás.

„Mér varð mjög kalt eftir að ég sprengdi úlpuna. Þá var akkúrat komið frost.“

Það endurspeglar samt hlýhug Seyðfirðingana sem listnemana sem heimsækja þá árlega að Nikulási var gefin úlpa.

„Pétur (Kristjánsson) á Tækniminjasafninu gaf mér úlpu sem hann fann þegar hann var ungur í einhverjum gámi í útlöndum. Ég er því kominn með nýtt persónueinkenni.“

Allt tuttugu sinnum erfiðra í Reykjavík

Hann er þakklátur Seyðfirðingum fyrir móttökurnar. „Mann kvíðir fyrir að fara aftur til Reykjavíkur. Maður er orðinn svo góðu vanur. Þar er allt tuttugu sinnum erfiðra en hér. 

Ég er afar þakklátur fyrir að fá tækifærið til að koma hingað. Hér er yndislegt að vera og allir bæjarbúar mjög liðlegir.“

Sýningu listnemanna, sem ber yfirskriftina Trarappa, lýkur um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.