„Mikið vill meira“

„Nýheimkominn tel ég standa upp úr þá samkennd sem ríkti meðal ferðafélaga og varðar þá engu hvort viðkomandi tilheyrði öðrum hvorum kórnum eða kom með sem maki eða vinur,“ segir Magnús Már Þorvaldsson, upplýsingafulltrúi Vopnafjarðar og meðlimur í karlakór Vopnafjarðar, en kórinn kom heim í gær úr sinni fyrstu utanlandsferð til Færeyja ásamt kirkjukór Vopnafjarðar.


Liðlega fjörutíu manns fóru í ferðina, en kórarnir héldu tvenna tónleika, annars vegar í Klaksvík og hins vegar í Þórshöfn. Hver var tilkoma ferðarinnar?

„Karlakór Vopnafjarðar var stofnsettur haustið 2011. Var starfið fyrst í stað miðað við tónleika heima að vori, en á síðustu árum hefur það vaxið, kórinn hefur ferðast um Austur-, Norður- og Suðurland. Kirkjukórinn er ávallt með í för, nema þegar karlakórnum er sérstaklega boðin þátttaka á kóramótum. Ferðin til Færeyja var í rökréttu framhaldi af því starfi sem unnið er innan kóranna en tilvist þeirra grundvallast einkum af frábæru framlagi kórstjórans Stephen Yates. Metnaður hans smitar okkur kórfélagana, við erum stöðugt að læra.“


„Við getum ekki kvartað yfir mætingunni“
Aðspurður hvort áhorfendur hafi streymt að í Færeyjum segir Magnús Már; „Fjöldi er afstæður en ég held að við getum ekki kvartað yfir mætingunni. Á ferð sem þessari lærum við ýmislegt, þar með talið hvernig betur er hægt að auglýsa tónleikahaldið í hlutaðeigandi stað eða stöðum. Það verk sem Guðjón kórformaður vann lagði grunn að þeirri dásamlegu ferð sem við öll upplifðum. Guðjón leiddi vinnuna sem formanni sæmir, en við erum fimm í stjórn karlakórsins og síðan eru framúrskarandi stúlkur kirkjukórsmegin sem að málum komu.“

Samstaða, vinátta og gleði
Magnús Már er himinlifandi með ferðina í heild sinni. „Satt best að segja held ég að að við hefðum ekki getað valið betri kost en Færeyjar sem fyrstu utanför kóra Vopnafjarðar. Ekki einungis er samfélagið lítið sem auðveldar gestinum að kynnast því og nálgast heldur byggir þessar eyjar svo dásamlegt fólk að það eru hrein forréttindi að sækja það heim. Taka má ferðina saman í fáum orðum, samstaða, vinátta og gleði gefa býsna góð mynd af viðhorfi okkar til ferðarinnar. Og um Færeyinga verður talað af virðingu og vinsemd hafi það ekki þegar átt við hvert og eitt okkar áður en úr landi var haldið.“

Okkar framlag var að kynna Vopnafjörð
Magnús Már segir að vangaveltur um aðra ferð hafi að sjálfsögðu hafist á heimleiðinni í Norrænu. „Mikið vill meira! Auðvitað langar okkur í fleiri ferðir en ferð sem þessi kostar háar fjárhæðir og ljóst að ekki verður farið utan á næsta ári. Hvaða land verður fyrir valinu næst er enn óljóst en umræðan er þegar komin af stað og hafandi þetta markmið verður starfið miðað við það. Bind ég auðvitað vonir við að fleiri munu ganga til liðs við kórana á næstu misserum og horfi þá einkum til yngra fólks.

Mig langar, fyrir hönd beggja kóranna, að koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra er veittu okkur fjárhagslegan og móralskan stuðning, sá stuðningur grundvallaði möguleikann á ferðinni. Okkar framlag var svo að kynna Ísland og þá einkum Vopnafjörð með jákvæðum hætti og hafandi innilegt þakklæti tónleika gesta í Klaksvík og Þórshöfn veit ég að við skiluðum söngnum sómasamlega frá okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.