Með lykla milli fingranna og 112 í hraðvali

„Ofbeldi gegn konum er gífurlegt vandamál um allan heim og með því að mæta og dansa sýnum við samstöðu og tökum afstöðu gegn ofbeldi,“ segir Margrét Perla Kolka, kennari í Verkmenntaskóla Austurlands, en dansað verður á þremur stöðum á Austurlandi í hádeginu á föstudaginn undir formerkjunum Milljarður rís 2017.



Milljarður rís, dansbylting UN Women, er haldin er víða um heim. Er þetta í fimmta skipti sem dansað er í Neskaupstað og fjörið hefst í íþróttahúsinu klukkan 12:30 og stendur til 13:00.

„Við höfum verið með frá upphafi dansbyltingarinnar hér á landi, að fyrsta árinu undanskildu. Til að byrja með var þetta aðeins bundið við VA, svo buðum við grunnskólanum að vera með og síðar öllum sem vildu,“ segir Perla.

„Kynbundið ofbeldi er einnig á Íslandi eins og saga Birnu Brjánsdóttur sýndi okkur, íslenskar konur upplifa sig ekki öruggar lengur. Í kjölfar hvarfs Birnu hafa konur hér á landi stigið fram og lýst þeim veruleika sem þær búa við. Þeim ótta og óöryggi sem þær finna fyrir á götum úti og hvernig þær axla ábyrgð á mögulegu ofbeldi með því að forðast augnsamband, velja ákveðnar götur fram yfir aðrar, halda á lykli milli fingra sinna í annarri hendi og símanum í hinni með 112 á hraðvali er þær ferðast milli staða að kvöld- og næturlagi. Ofbeldi eða ótti við að verða fyrir því er hluti af daglegu lífi kvenna víða um heim. Ofbeldið á sér stað hvenær sem er dagsins, á heimilum, á úti á götum, í almenningssamgöngum, á vinnustöðum og í kringum skóla svo dæmi séu nefnd,“ segir Perla.


Öruggari borgir fyrir konur

UN Women vinnur að því að gera borgir öruggari fyrir konur og stúlkur víða um heim, í samstarfi við borgaryfirvöld að einföldum og ódýrum aðgerðum sem miða að því að uppræta og draga úr ofbeldi gegn konum og stúlkum á almenningssvæðum.

„Það sem er nýtt hjá okkur núna er að Fjarðabyggð er með okkur í þessu, en þar sem þemað í ár er örugg borg, var ákveðið að fá stjórnsýsluna meira með, en það var auðsótt mál og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri opnar viðburðinn og lokar honum, en Guðrún Smáradóttir stjórnar dansinum eins og áður. Öryggi kvenna í bæjum og borgum er auðvitað eitthvað sem skiptir máli og því er frábært að fá bæjarstjórn til þess að hugsa enn frekar um þessi mál.“


Skylda menntastofnana að fræða nemendur um mannréttindi

Perla segir viðburðinn skemmtilega leið til þess að vekja máls á erfiðu málefni. „Við sameinumst í góðri orku og með því getum við breytt heiminum. Við í VA höfum verið dugleg að vekja máls á fjölbreyttum málefnum, en það er okkar skylda að fræða nemendur okkar um mannréttindi, eins og öryggi kvenna svo sannarlega er. Það gleymist oft þegar áherslan er öll á íslensku og stærðfræði.“

Perla segir að allir geti tekið þátt á föstudaginn. „Það er engin skylda að dansa, ef menn vilja koma og horfa á þá er það alveg sjálfsagt. Dansinn endar svo á laginu sem Gunnar Þórðarson samdi í minningu Birnu. Því má segja að markmiðið sé að bæði að opna umræðuna og standa saman um öryggi kvenna sem og að minnast Birnu. Það fylgdust allir náið með leitinni að henni, allt niður í unga krakka og það skiptir máli að leyfa þeim að taka þátt.“

Á Austurlandi verður einnig dansað á Egilsstöðum og Seyðisfirði. Dansinn verður í Herðubreið á Seyðisfirði og í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Á báðum stöðum hefst stuðið klukkan 12:00.


Mætum og tökum afstöðu gegn ofbeldinu

UN Women á Íslandi hvetur vinnustaði, skóla og vinahópa til að mæta og dansa fyrir réttlátum heimi. Aðgangur er ókeypis. Einnig til að taka þátt í að gera borgir öruggari fyrir konur og stelpur með því að senda sms-ið Konur í 1900 (1000 kr.) Ný „Fokk ofbeldi“ húfa fæst í verslunum Vodafone, á heimasíðu Vodafone og á unwomen.is.



Ofbeldi gegn konum er vandamál um allan heim – tökum afstöðu gegn ofbeldinu, mætum, dönsum og gefum ofbeldi fingurinn!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.