Litla jólatréð skilaði UNICEF milljón

Stöðfirðingurinn Halla Kjartansdóttir afhenti UNICEF eina milljón króna þann 6. janúar síðastliðinn, en Halla bar sigur úr bítum í jólaleik VR, þar sem fólk var hvatt til þess að senda inn myndir og sögur af eftirminnilegu jóladóti og VR gæfi eina milljón króna til UNICEF í nafni vinningshafans.



Dómnefndin valdi mynd Höllu úr þeim þremur sem hlutu flest „like“ og deilingar á Facebook. Myndin er 46 ára gömul, en faðir Höllu, Kjartan Guðjónsson, tók hana af henni við sitt uppáhaldsjólaskrautið sem hún fékk aðeins þriggja ára gömul. Saga Höllu er hér að neðan;

„Þegar ég var þriggja ára gömul þá leyfðu foreldrar mínir mér að velja mér gjöf á jólamarkaði Kaupfélagsins á Stöðvarfirði, þar sem við bjuggum. Þeim til mikillar undrunar þá stormaði ég framhjá dúkkum og fallegum böngsum og valdi mér fallegt, lítið jólatré með ljósaseríu. Þetta tré hefur fylgt mér allar götur síðan og er núna orðið 46 ára gamalt. Það er geymt á milli jóla í upprunalega kassanum (verðmiðinn er meira að segja enn á honum) og upprunalega ljósaserían frá Osram prýðir enn þetta dýrmæta tré. Ótrúlegt en satt, þá kviknar enn á seríunni þrátt fyrir að þrjár perur séu nú ónýtar og lýsir litla tréð okkur fjölskyldunni inn í jólahátíðina á hverjum aðfangadegi. Sjá má á myndinni að gleðin yfir þessari gjöf var mikil og enn í dag er þetta mitt allra dýrmætasta jólaskraut. Tréð er órjúfanlegur hluti af ánægjulegri barnæsku minni og yndislegum jólahátíðum í fortíð og nútíð. Ég vildi óska að öll börn í heiminum hefðu tækifæri til að halda sinni barnslegu gleði, hvort sem er á hátíðisdögum eða í sínu hversdagslega lífi. Megi sem flestir í heiminum eiga gleðileg jól og hamingjuríkt komandi ár!“

Hall Kjartansdóttir UNICEF2

 


Dýpri saga bak við tilurð trésins

„Þetta er bara jólaskraut-IÐ og hefur alltaf verið dýrmætasta skrautið mitt. Núorðið er bara kveikt á því á allra heilugustu stund jólanna, því ég er orðin nísk á perurnar,“ segir Halla í samtali við Austurfrétt.

„Það er reyndar aðeins dýpri saga á bak við þetta, því jólin á undan, þegar ég var tveggja ára, þurfti ég að dvelja á spítala í Reykjavík, án foreldra minna og fjölskyldu. Mamma og pabbi vildu því gera jólin þar á eftir alveg sérstök og því fékk ég að velja mér dót á leikfanga- og jólamarkaðnum uppi á lofti í gamla kaupfélaginu á Stöðvarfirði. Þau urðu alveg hlessa hversu fullorðinslegt val mitt var, því þau voru alveg viss um að mig langaði heldur í dúkku, bangsa eða annað leikfang.

Ég man hvað mér þótti merkilegt að ég ætti mitt eigið jólatré. Ég veit svosem ekki hvað varð til þess að ég valdi það á sínum tíma, líklega bara ljósin, en ég hef alltaf verið hrifin af marglitum ljósum og fyrir mér eru það einu jólaljósin.“


„Myndin endurspeglar mína góðu æsku“

Halla segir það hafa verið sérstaklega ánægjulegt að afhenda UNICEF milljónina.

„Ég tek aldrei þátt í svona leikjum, en skrautið mitt poppaði strax upp í huga mér þegar ég las auglýsinguna frá VR. Málefnið höfðaði líka til mín. Myndin endurspeglar mína góðu æsku og auðvitað vill maður að öll börn eigi góða tíma og öruggt skjól eins og maður sjálfur hafði. Það er ágætt að minna sig á að það hafa það ekki allir jafn gott.“


„Við erum mjög þakklát fyrir stuðninginn“

Í frétt á heimasíðu VR segist Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, að vonum vera ánægður með uppátæki VR. „Við erum mjög þakklát fyrir stuðninginn og það góða fordæmi sem VR sýndi með þessu. Við erum snortin yfir öllum þeim fallegu og skemmtilegu sögum sem bárust og sem hjálpuðu sannarlega til við að tendra jólaandann hjá fólki. Auk þess vakti framtakið ómetanlega athygli á neyð barna í Sýrlandi og hvað hægt er að gera til að lina þjáningar þeirra.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.