Linda Björk: Ég gat ekki verið kyrr uppi í sófa

Linda Björk Stefánsdóttir spilaði með meistaraflokki Einherja í knattspyrnu mánuði eftir að hún eignaðist dóttur sem lést hálfum sólarhring eftir að hún fæddist. Linda Björk hefur alla tíð verið á kafi íþróttum og leitaði þangað til að vinna úr áfallinu.


„Ég hef mest verið í fótbolta en það skiptir mig ekki öllu máli hvaða íþrótt er - mér finnst íþróttir yfir höfuð skemmtilegar. Mér finnst skrýtið þegar krakkar segjast hafa gaman af íþróttum en vilja bara vera í fótbolta,“ segir Linda í viðtali við Snæfell, tímarit UÍA.

Dóttir Lindu greindist með þindarslit á meðgöngu sem þýðir að öll líffæri, maginn og fleira, fara upp í brjóstholið og lungun náðu ekki að þroskast sem skyldi. „Við vissum út í hvað við fórum. Lífslíkur voru 70% og ég reyndi að vera bjartsýn. Það var meira en minna.“

Fann samúð frá ótrúlegasta fólki

Líf Lindu hefur að miklu leyti snúist um íþróttirnar og í viðtalinu segir hún frá því hvernig hún skipuleggi sig í kringum leiki Einherja. Þegar hún kom austur eftir fæðinguna fór hún strax á völlinn.

„Ég fann fyrir samúð frá ótrúlegasta fólki og úti í búð kom það og tók utan um mig. Mig langar samt ekkert að fara að gráta úti í búð og ég get harkað af mér.

Ég var kvíðin fyrst en ég hugsaði með mér að illu væri best af lokið og dreif mig af stað. Ég reyndi kannski að forða mér úr búðarferðunum en ég gerði það sem ég var vön og fór beint á völlinn.“

Vopnfirðingar tóku meðal annars á móti Lindu og fjölskyldu eftir heimkomuna með mínútu þögn fyrir heimaleik. „Fyrst þegar ég var spurð út í þetta sagði ég já og hugsaði að mér væri sama en þegar ég var komin á völlinn hugsaði ég: „vá – mér þykir vænt um þetta.“ Líf mitt hefur alltaf snúist um Einherja og fótboltann og mér fannst vænna um þetta en ég gerði mér grein fyrir.

Það þýddi heldur ekkert fyrir mig að fara í felur með þetta, hér eru allir ofan í öllum og þetta var eina barnið sem fæddist á Vopnafirði þetta ár.“

Oft erfitt að fara á æfingar

Þá var hún á vellinum sem áhorfandi en fljótlega var hún mætt inn á hann sjálf. „Það er rosalega erfitt að missa barn og það er hægt að liggja upp í sófa og grenja öllum stundum. Ég get hins vegar ekki verið kyrr uppi í sófa og gert ekki neitt.

Það er langbest að fara í félagsskap í einhverju sem þú hefur gaman af og því reif ég mig á æfingar um leið og ég mátti fara af stað, einhverjum fjórum vikum eftir að ég átti. Það var oft erfitt að fara á æfingar og ég þurfti oft að rífa mig upp en ég held að það sé betra en að sitja heima.

Ég bölvaði því að það hafði verið tekin ákvörðun um að fara aftur af stað með meistaraflokk kvenna akkúrat þegar ég var ólétt því ég hafði þráð það í mörg ár. Í dag er ég mjög þakklát fyrir það því ég held að það hafi hjálpað mér mjög mikið.

Ég sagði alltaf að ég yrði með þegar ég kæmi heim en ef hún hefði lifað af þá hefði ég verið allt sumarið í Reykjavík. En fyrst fór sem fór ákvað ég að drífa mig af stað. Mér fannst ég gömul og þung en ég var viss um að áhorfendur hugsuðu: „Djöfull er hún dugleg. Hún var að eiga barn.“

Þegar tímabilið var búið tók annað við og ég málaði alla íbúðina. Það er erfitt að sitja heima allan daginn á haustin, krakkarnir eru farnir í skólann og maður hefði átt að vera heima með barn í höndunum. Slík staða er ekki holl fyrir neinn og þá verður maður að finna sér eitthvað að gera.“

Mikið betra að halda áfram

Hún segist aldrei hafa efast um að það væri rétt að fara strax í boltann. „Ekki eitt augnablik. Ég læt ekki hlutina bíða of lengi og lífið verður að halda áfram. Þú saknar barnsins þíns alveg jafn mikið hvort sem þú situr heima eða ekki. Það verður að sinna hinum börnunum líka. Við héldum áfram enda fannst mér það mikið betra.“

Linda kveðst strax hafa verið harðákveðin í að eignast annað barn. Dóttirin Adríana Ósk fæddist þann 29. júní síðastliðinn og var strax drifin inn í fjölskyldulífið.

„Ég átti aðfaranótt miðvikudags og var komin heim með hana á föstudegi. Það var leikur hérna á laugardegi og ég fór með hana á hann. Á sunnudag keyrði ég með hana fram og til baka á Akureyri þar sem hin dóttir mín var að spila fótbolta.“

Fótboltinn hafði líka áhrif á skírnina 23. júlí. „Ég vildi skíra hana sama dag og hina dótturina. Skírnin var klukkan ellefu um morguninn og ég sagði við gestina að þeir yrðu að vera farnir út klukkan tvö því þá væri leikur uppi á velli. Einn þeirra sagði mig að þetta væri í fyrsta skipti sem honum væri sagt hvenær skírn væri búin.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.