Leikrýni: Hinn fullkomni jafningi

unnargeir_fullkomnir_jafningi_0004_web.jpg
Leikverkið Hinn fullkomni jafningi, eftir Felix Bergsson, var sýnt tvívegis í Sláturhúsinu á Egilsstöðum um liðna helgi. Það er leikhópurinn Artik sem setur sýninguna á fjalirnar að þessu sinni en sýningarnar hér eystra voru í samstarfi við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs. Unnar Geir Unnarsson leikur öll fimm hlutverkin í sýningunni.

Það sannaðist sem fyrr að það þarf ekki stóra og mikla umgjörð til þess að njóta góðs leikhúss. Þó að frystiklefinn í Sláturhúsinu sé ekki fyrirmyndar leikhúsrými, þá tókst með einföldum hætti að skapa góða og látlausa umgerð um þessa einlægu og flottu sýningu þar sem tæknileg atriði, svo sem ljós og hljóð, voru fagmannlega og vel af hendi leyst.
 
Sýningin er skrifuð fyrir einn leikara sem fær það krefjandi verkefni að túlka allar fimm aðalpersónur verksins. Allir eru þeir samkynhneigðir karlmenn, en á ýmsum aldri og ólíkir um flest þó þeir tengist náið eins og sýningin leiðir smám saman í ljós. 
 
Í verkinu segir frá Ara, kennara á fertugsaldri sem á barn úr hjónabandi sem hann stofnaði til áður en hann kom út úr skápnum. Ásgeir, eða Ásta frænka, er á sjötugsaldri og man frumdaga réttindabaráttu samkynhneigðra hérlendis. Máni er um tvítugt og á leið utan á vit ævintýranna. Steinþór Reykdal er virðulegur lögfræðingur um þrítugt sem helgað hefur sig starfinu. Albert er úr þorpi utan af landi þar sem áherslan er á karlmennsku og lítið umburðarlyndi gagnvart „stelpustrákum.“
 
Það er skemmst frá því að segja að Unnari tekst afar vel upp í sínum hlutverkum og skilar sögunni fullkomlega til áhorfenda. Skiptingar á milli hlutverka voru trúverðugar þau einföldu brögð sem beitt var til að hjálpa áhorfendum að upplifa persónur verksins, svo sem gleraugu hér og skyrta þar, dugðu vel til að styðja við túlkun leikarans.
 
Sagan er einföld og sýningin ekki löng, raunar jaðraði hún við að vera snubbótt eftir hlé svo mjög hefur verið um það hugsað að draga hana ekki á langinn, en boðskapurinn skýr og einlægur. Verkið er að nálgast 15 ára aldurinn og er það að sumu leyti greinilegt, bæði út frá smáatriðum eins og notkun persóna á Irc-inu til samskipta en líka út frá þeirri tilfinningu og von að staða samkynhneigðra í samfélaginu sé betri í dag en sá veruleiki sem lýst er í verkinu.
 
Það er óhætt að mæla með Hinum fullkomna jafningja og vonandi gefst oftar tækifæri til að sjá verkið svo fleiri geti notið þess. Eins er ástæða til að vona að við fáum sem fyrst fleiri tækifæri til þess að sjá Unnar á sviði á heimaslóðum hér eystra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.