Leikrýni: Grís

grease_djupid_va.jpg
Djúpið, leikfélag Verkmenntaskóla Austurlands og Leikfélag Norðfjarðar stóðu sameiginlega að uppfærslu á söngleiknum Grís sem sýndir var í Egilsbúð fyrir skemmstu. Svo mikill var krafturinn í hópnum að síðasta föstudagskvöld voru sýndar tvær sýningar, önnur klukkan átta og hin á miðnætti. 

Eitt af því besta við sýninguna var hversu flottum hárgreiðslum leikararnir skörtuðu. Greinilegt að hægt er að læra hárgreiðslu við skólann. 

Búningarnir voru auk þess mjög flottir og náðu þeir að endurspegla tísku þessa tímabils. Búningar bleika gengisins voru svo vel heppnaðir og yfirgengilega hallærislegir að það væri meira að segja erfitt að finna vinkonuhóp á þjóðhátíð sem væri tilbúinn að klæðast þeim.  

Leikararnir stóðu sig flest allir vel en stúlkuhópur sýningarinnar hafði það umfram strákana að þar voru fleiri sterkir söngvarar. Það kom niður á sýningunni að ekki gátu allir gæjarnir haldið lagi. Frábær hljómsveit sýningarinnar með kraftmiklum blásturshljóðfærum í farabroddi fór þó langt með að redda því að ekki voru eintómir stórsöngvarar í sýningunni og á hljómsveitin lof skilið.
 
Tilfinningarnar virtust þó skila sér ágætlega í söngnum. Eftir tregafullan söng Danny til Sandy heyrðist í ungum áhorfenda á fremsta bekk: „Æ, æ, aumingja Sandy.“ Sennilega var vorkunnin ætluð Danny í þessu tilfelli en augljóst að söngvaranum tókst að hrífa áhorfandann með sér. 

Að öllum öðrum ólöstuðum þá stal Þórður Júlíusson skólameistari VA senunni með innkomu sinni í seinni hluta sýningarinnar þar sem hann lék hinn eiturhressa og kvensama útvarpsþul Vince Fontaine. Sýningin náði góðu flugi eftir hlé en aðeins skorti upp á kraftinn og gleðina fyrri helming hennar. Sviðsmyndin var nokkuð vel heppnuð, hljóð og tæknivinnsla í flottu lagi.

Heilt yfir er þetta þó flott sýning og eiga allir sem koma nálægt henni hrós skilið, bæði þeir sem stóðu utan sviðs sem og þeir sem stóðu fyrir framan fullan sal af austfirskum áhorfendum.

Hægt að er að mæla með henni fyrir alla fjölskylduna, bæði fyrir þá sem muna eftir Travolta án bumbu og skalla en yngri kynslóðin virtist þó skemmta sér hvað best þetta kvöld.
 
grease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpggrease_djupid_va.jpg
 
 
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.