Las Landið þitt Ísland og Vegahandbókina til jafns við Andrésblöðin

„Ég hef verið beðinn um að útbúa myndir fyrir flest bæjarfélög landsins og er alltaf að bæta við í safnið,“ segir B Borgfirðingurinn Hafþór Snjólfur Helgason, sem hefur að undanförnu hannað og selt myndir sem hann kallar bæjarmyndir.


„Ég hef alveg frá æsku verið hugfanginn af Íslandi og íslenskri náttúru. Sem krakki las ég Landið þitt Ísland og Vegahandbókina til jafns við Andrésblöðin og hef alltaf verið mikið kortanörd og áhugamaður um allt sem við kemur landfræði Íslands en á ég pabba heitnum algjörlega þann áhuga að þakka,“ segir Hafþór Snjólfur.

Hafþór Snjólfur er lærður landfræðingur og margmiðlunarhönnuður. „Ég hef mikið unnið með landfræðileg gögn í vinnunni og þá einna helst í tengslum við kortagerð fyrir sveitarfélög og ferðamálasamtök hér fyrir austan og víðar um land. Í þeirri vinnu má segja að þessi hugmynd hafi kviknað fyrst. Mig langaði gera eitthvað, hannað af mér, sem fólk úti um allt land væri tilbúið að hafa uppi á vegg. Ég þekki það sjálfur, oft búandi fjarri æskuslóðunum á Borgarfirði, hversu notalegt það er að hafa eitthvað fallegt uppi á vegg sem minnir á þann stað þar sem manni líður best á og hjartað slær.“

Hver og ein mynd unnin út frá óskum kaupanda
Hafþór Snjólfur segist hafa gengið nokkuð lengi með hugmyndina áður en hann lét til skarar skríða. „Síðan mín hugmynd kviknaði hafa margir aðilar boðið upp á allskonar korta- og myndaútprentanir af völdum svæðum. Ég vildi einblína á útlínur lands og vatns, auk þess sem hver og ein mynd væri unnin eftir óskum hvers og eins, en ég hef til dæmis reglulega gert samsettar myndir handa pörum þar sem tveir staðir koma saman á einni mynd. Einnig hef ég sérunnið myndir fyrir sveitabæi en þeir sem panta geta valið sinn GPS-punkt og algjörlega ráðið því landsvæði sem er á myndinni, þó svo að þær séu allar unnar út frá sama grunni og útliti. Það er ótrúlega gaman og spennandi að sjá hvernig mismunandi staðir landsins koma út í þessu formi.“

Eftirspurnin nær út fyrir landsteinana
Hafþór Snjólfur segir sölu myndanna hafa gengið vel. „Viðbrögðin hafa eiginlega verið lygilega góð og mér hefur þótt ótrúlega gaman að finna hvað þeir sem panta eru alltaf ánægðir með útkomuna. Svo er þetta verkefni farið að teygja sig út fyrir landsteinana því ég hef nú þegar útbúið myndir fyrir þorp í Grænlandi, Færeyjum, Noregi og Danmörku. Það er ekki alveg það sem ég sá fyrir í upphafi en virkilega gaman að geta líka boðið upp á það.“

Hér er hægt er að skoða bæjarmyndir Hafþórs auk ljósmynda eftir hann.

Hafþór Snjólfur Helgason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.