Langaði að safna stóðinu saman á einn stað

Bókin Hestar eftir listamanninn Pétur Behrens kom út hjá forlaginu Bókstaf í nóvember en þar gefur að líta yfir hundrað myndir eftir Pétur sem allar tengjast hestum eða hestamennsku, auk skýringatexta á þremur tungumálum.



Pétur Behrens er fæddur í Hamborg og stundaði myndlistarnám í Hamborg og Berlín og lauk lokaprófi frá Meisterschule für Grafik í Berlín. Hann kom fyrst til Íslands árið 1959 en fluttist hingað alkominn 1963 og kenndi lengi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hann bjó með konu sinni Mariettu að Höskuldsstöðum í Breiðdal frá árinu 1986 en flutti að Finnsstaðaholti á Fljótsdalshéraði árið 2010.


Myndirnar unnar yfir langan tíma

„Ég er málari og hestamaður og því eðlilegt að hestar yrðu eitt af mínum viðfangsefnum. Myndirnar í bókinni eru unnar á löngum tíma og með ýmsum aðferðum en eiga það sammerkt að tengjast allar hestum og hestamennsku. Mig langaði einfaldlega að safna stóðinu mínu saman á einn stað,“ segir Pétur.

Við hverja mynd eru textar á íslensku, ensku og þýsku. „Hesturinn er fyrir mig eins konar táknmynd fyrir Ísland og sögu þess en hann er það líka fyrir mikinn fjölda fólks erlendis eða í tólf til fimmtán löndum.“



Fleiri bækur á leiðinni

Pétur segir vinnuferlið við bókaútgáfuna hafa verið ánægjulegt. „Samvinnan við Ingunni Þráinsdóttur sem setti bókina upp og einnig var gaman að kynnast og vera í samstarfi við Sigríði Láru Sigurjónsdóttur og allar hinar skemmtilegu Bókstafskonurnar.“

Pétur segir alltaf eitthvað vera í pípunum og tvö verkefni séu komin nokkuð áleiðis. „Tvennt er í vinnslu og komið eitthvað áleiðis, annars vegar safn með teikningum og hins vegar bók með rúmlega hundrað mannamyndum, bæði málverkum, teikningum og grafíkmyndum. Flest er þegar ljósmyndað og svolítið af textum er líka til,“ segir Pétur þannig að bókaunnendur geta þegar farið að hlakka til jólabókaflóða næstu ára.

Pétur Behrens bókakápa

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.