„Kúnnahópurinn okkar er frábær“

„Í upphafi ætluðum við aðeins að taka að okkur verkefni tengd innanhússarkitektúr, en einhvernvegin þróaðist þetta út í svo miklu meira,“ segja systurnar Alfa og Rán Freysdætur, sem reka hönnunarstúdíóið Grafít á Djúpavogi.



Alfa og Rán eru báðar menntaðir innanhússarkitektar og hafa unnið við fagið erlendis, en komu heim og opnuðu stúdíóið fyrir nokkrum árum. Þær segja verkefnin næg og þá sérstaklega í tengslum við mikla uppbyggingu í ferðamannageiranum.

Þær kalla fyrirtækið hönnunarstúdíó og taka að sér fjölbreytt verkefni, allt frá innanhússarkitektúr, markaðssetningu fyrirtækja og í að fríska upp á heimili og veita innblástur. „Þetta vinnur svo oft allt saman og fólki þykir oft gott að fá einn og sama aðilann í allt saman,“ segir Alfa.


Fjórir aukatímar í sólarhringum út á landi

Aðspurðar að því hvort sé erfitt að reka fyrirtæki sem þetta á litlum stað á landsbyggðinni svarar Alfa.

„Að stofna fyrirtæki er alltaf mikil vinna til að byrja með, það þarf að koma því á framfæri og það sama á alveg við um okkur og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Sumir hafa einmitt leitað til okkar vegna þess að við erum nálægt markaðnum hér á Austur- og suðausturlandi og eins og tæknin er orðin í dag er lítið mál að vinna hvaðan sem er.“

Systurnar eru sammála um að þeim finnist tíminn nýtast betur eftir að þær fluttu aftur heim.

„Það verður minna úr deginum í Reykjavík eða einhverri stórborg þar sem vegalengdirnar eru svo miklar, maður áorkar miklu meira hér, svolítið svona eins og að fá fjóra auka tíma í sólarhringinn,“ segir Rán.


Vinna flest öll verkefnin saman

Rán segir systurnar vinna að flestum verkefnunum saman, en að þær hafi sína styrkleika, til dæmis sjái hún um allar teikningar en Alfa um grafísku hliðina.

„Við byrjum iðulega á því að hitta viðskiptavinina og helst í því rými sem á að vinna með. Út frá því gerum við þarfagreiningu og svo myndræna útlistun á því hvert verið er að stefna. Við kynnum svo nokkrar tillögur sem að kaupandinn velur svo úr og í framhaldi af því komust við að einhverri lokaniðurstöðu saman.

„Kúnnahópurinn okkar er frábær. Það var ekki alltaf sama ánægjan í Bandaríkjunum og þegar maður hefur verið lengi í slíku umhverfi og kemur svo hingað stendur það upp úr hve gaman og gefandi það hefur verið að vinna með öllu þessu fólki,“ segir Rán að lokum.

Comcast California 1

Djúpavogsbjór 2

Farmhouse 4 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.