Hreinn Halldórsson verðlaunaður fyrir lofsöng um Fljótsdalshéraðs

Hreinn Halldórsson hlaut nýverið fyrstu verðlaun í ljóðsamkeppninni Héraðsfljóðaljóð sem kvennakórinn Héraðsdætur stóð fyrir. Þema keppninnar var lofsöngur um Fljótsdalshérað eða dætur Héraðs.


Í umsögn dómnefndar segir um ljóð Hreins að það nái „í senn að draga fram perlur Héraðs og upphefja sem lofsöng, um leið og tilvísun er til dætra Héraðs og komandi kynslóða.“

Verðlaunin voru afhent á vortónleikum Héraðsdætra í Egilsstaðakirkju. Hreinn fékk fyrstu verðlaun, í öðru sæti var ljóðið Dóttir Héraðs eftir Jónas Þór Jóhannsson og í þriðja sæti ljóð með sama nafni eftir Philip Vogler.

Ljóðunum var skilað inn undir dulnefndum. Dómnefnd skipuð fulltrúum kórsins, sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs, frá útgáfufélaginu Bókstafi og Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi valdi síðan úr bestu ljóðin.

Fleiri verðlaunaljóð má sjá á Facebook-síðu Héraðsdætra. Í haust stendur síðan til að standa fyrir lagasamkeppni.

Fljótsdalshérað – Lofsöngur

Fljótsdalshérað, fagra perla,
fóstra mín ég kveð til þín.
Gegnum aldir átt þú hefur
umhverfi sem fegurst skín.
Í Lagarfljóti lifna og merla
lýði, þekku sagnirnar;
þar sem enn má Orminn líta
uppi, rétt við klappirnar.

Allt frá heiðum út til Flóa
áttu þína sterku mynd;
grundir sléttar, græna móa
grónar hlíðar, foss og lind.
Hallormsstaður skógi skartar
skynjun þar er fáu lík.
Margir eiga mætar, bjartar
minningar frá Atlavík.

Hengifoss af háu fjalli,
hömrum prýddur fjallasal,
stuðlaberg um frjálsu í falli
fer hann sína leið í dal.
Fljótið lygnt mót flóa streymir
flytur lífsins von og tár.
Orku mikla í sér geymir,
aflið lýsir þúsund ár.

Fardaga má fossinn kanna,
fagra perlu í Heiðarbrún.
Þar er hellir huldumanna
heillandi sem gömul rún.
Eiðasetri ei má gleyma,
ungu fólki menntun bjó.
Íþróttir þar áttu heima,
unaðsstund við mörgum hló.

Úthéraðið upp til fjalla
unaðsreita býður lind.
Þar má finna fegurð alla
farir þú af Skarði að tind.
Dyrfjöllin og dyrum undir
dýrðarundur, jarðfalls burð.
Kynja myndir, grjót og grundir
gróðurvinin, þekkt – Stórurð.

Vítt um Hérað bændur búa
bætt þeir hafa jarðalönd.
Traustir vel að trjárækt hlúa
trúir því að leggja hönd
á það sem að framtíð færir
fyllstu vonir, lífsins mátt,
á það sem að neistann nærir;
næsta kynslóð lifi sátt.

Öldum saman orka kvenna
okkar vegferð hefur bætt.
Þær að mörgu ráðum renna,
röska sveina hafa fætt.
Ábyrgðinni einlægt sinna,
efla flest á hærra stig.
Héraðsdætur fái að finna
fyllstu vonir snerta sig.

Fljótsdalshérað, vænna valla,
velsæld ríki æ hjá þér.
Íbúunum öllum færðu
innri frið sem lífið ber
fram á við um framtíð alla,
frjósöm verði jörðin þín.
Barna þinna leiðir lýstu
langa eilífð, sveitin mín.

Jóhanna Þorsteinsdóttir, kona Hreins, tók við verðlaununum fyrir hans hönd. Við hlið hennar eru Jónas Þór og Philip. Mynd: Ásdís Helga Bjarnadóttir

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.