Héldu upp á útskriftarafmælið úr Húsó: Fæstar höfðu sést í fimmtíu ár

huso_50ar_0089_web.jpg
Hópur kvenna kom saman í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað fyrir skemmstu til að halda upp á fimmtíu ára útskriftarafmæli úr skólanum. Fæstar þeirra höfðu sést frá því þær útskrifuðust. Einn af þeirra fyrrverandi kennurum slóst í hópinn.

„Það gekk ótrúlega vel að ná hópnum saman þótt við séum dreifðar út um allt land. Það var ótrúlega gaman að heyra í hverri og einnig og viðtökurnar frábærar. Ein okkar býr í Súðavík og hjá henni var nóg að gera en hún sagðist ekki sleppa því að fara á Hallormsstað,“ segja þær Unnur Jónsdóttir og Björg Halldóra Björnsdóttir.

Þær höfðu veg og vanda af því að ná hópnum saman. Unnur býr á Fáskrúðsfirði og Björg í Reykjavík en þær hafa allan tíman haldið sínu sambandi. „Við enduðum skólagönguna á að fara hringferð með Esjunni, þá sautján ára gamlar. Það var útskriftarferðalagið.“

Ellefu úr árganginum hittust á Hallormsstað til að fagna áfanganum. Þrjár komust ekki og tvær eru látnar. „Við vorum alls 34 stúlkur í tveimur árgöngum hér veturna 1961 og 62.“

Handavinnukennarinn með

Þá var með hópnum Ingunn Björnsdóttir, 87 ára frá Akureyri en hún kenndi hópnum handavinnu seinni veturinn sem hann var á Hallormsstað. Skólastjórinn var Ásdís Sveinsdóttir en hún bjó í skólanum.

„Á kvöldin sátum við í aðalsalnum með handavinnuna og fröken Ásdís las framhaldssögur. Síðan var haldið þorrablót, þá var leiksvið í horninu og íbúð Ásdísar notuð sem búningsherbergi.“

Ýmislegt hefur breyst í skólanum á fimmtíu árum þótt haldið hafi verið í gamlar hefðir. „Þá var hér fjós hér við hliðina og fjórar beljur í því.“

Strákarnir komu hvernig sem viðraði

Símasamband var þá takmarkaðra en í dag, aðeins sveitasíminn til staðar. Helstu samskiptin voru við strákana í vetrarhjálpinni.

„Strákarnir komu um helgar, hvernig sem viðraði. Á laugardagskvöldum fengum við að dansa hér í skólanum því okkur langaði til þess. Stundum var svo mikill snjór að það var ekkert fært. Þá vorum bara við og fólkið á Hallormsstaðarbænum hér. Annars var engin umferð hér í kring nema á laugardögum. Þá heyrði maður í bílunum langar leiðir. Svo mikil var kyrrðin.“

Útivist var líka takmörkuð. „Við fengum klukkutíma í útivist á dag og að vera úti eftir kvöldmat – og til klukkan tíu á sunnudögum. Þetta var mjög strangt en maður þorði ekki annað en fara eftir því sem manni var sagt.“

Meiriháttar tími

Hópurinn stóð í öllu saman. „Það fór enginn einn í bíó á Reyðarfjörð. Annað hvort fórum við allar með rútu eða engin.“

Þetta var meiriháttar tími. Við lærðum hér svo margt, ungu stúlkurnar saman. Vissulega voru hér bærði gleði og sorgir en maður hristir af sér það neikvæða og tekst á við hið jákvæða.“

Hópurinn fékk sýnisferð um skólann í leiðsögn Katrínar Jóhannesdóttur, handavinnukennara. „Það var mjög gaman að sjá skólann. Það er gaman að sjá það sem er verið að gera, til dæmis handavinnuna og vefnaðaraðstöðuna.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.