Hjóla hringinn til að minna á notkun hjálma: Langmikilvægasta öryggistækið

hjolagarpar_slokkvilidsmenn_hjalmar_0001_web.jpg
Sex hjólreiðamenn hjóla nú hringinn í kringum landið til að minna á mikilvægi reiðhjólahjálma sem öryggistækis. Þeir segja helst vanta að unglingar noti hjálmana, notkunin minnki þegar ekki þyki lengir „hipp og kúl“ að vera með hjálm.

„Fyrst og fremst er þetta áhugamál okkar. Við höfum hjólað lengi saman og finnst þetta frábær hreyfing og skemmtileg. Við höfum líka mikinn áhuga á öryggismálum og viljum leggja sérstaka áherslu á notkun hjálma sem eru langmikilvægasta öryggistækið,“ segir Ólafur Baldursson, læknir á Landsspítalanum og einn hólagarpanna sex.

Höfuðmeiðslin langalvarlegust 
 
Hringferðin er samstarfsverkefni Rauða krossins, Landsspítalans, Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og Tryggingamiðstöðvar Íslands en hjólareiðamennirnir starfa hjá slökkviliðinu og spítalanum.

„Við fáum meira af fólki sem slasast hefur í hjólaslysum til okkar á hverju vori og við sjáum að það munar miklu um afleiðingar slysanna um hvort fólk hefur verið með hjálm eða ekki. Höfuðmeiðsli eru langalvarlegustu meiðslin ef maður dettur af hjóli.“

Það er einkum unglingar sem ekki nota hjálm. „Þegar krakkarnir eru orðnir þrettán fjórtán ára er hætt að vera hipp og kúl að vera með hjálm.“
 
Fara fjarðaleiðina 
 
Hópurinn lagði af stað úr Reykjavík á laugardagsmorgun og kom til Egilsstaða seinni partinn í gær þar sem Agl.is hitti hann. Áfram var síðan haldið yfir Fagradalinn til Reyðarfjarðar og gist þar í nótt. Í dag stendur til að hjóla fjarðaleiðina til Hafnar.

„Við erum á þannig hjólum að það er óþægilegt að vera möl. Þótt Öxi stytti leiðina þá erum við aðeins sex kílómetra á möl þessa leiðina ef við fáum að fara Fáskrúðsfjarðargöngin,“ segir sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaðurinn Eyþór Leifsson.

Mikilvægt að borða vel 
 
Ferðin hefur sóst vel. Örlítið hvasst var í byrjun og tvö dekk sprungu strax á Kjalarnesinu en síðan hafa engin óhöpp hent. Hópnum fylgja tveir bílar með stærðarinnar hjólhýsi þar sem hópurinn borðar og sefur.

„Við brennum 6-10 þúsund hitaeiningum á dag og verðum að borða svo ekki tæmist af borðunum. Það er mikilvægt að hafa kollinn skíran og hann er það ekki ef maður er þreyttur og svangur,“ segir Eyþór.

Þeir eru því afar þakklátir fyrir að hafa matráðinn Erlu Þorsteinsdóttur með sér. „Aðallega er þetta góður og hollur matur,“ segir Erla. „Við notum töluvert af mat frá Heilsu, lífrænan sem inniheldur mikið af hnetum. Þeir fá góðan morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Þess á milli komast þeir í orkudrykki og stykki.“

Framúraksturinn hættulegastur 
 
Þau segja ökumenn á leiðinni almennt hafa tekið tillit til þeirra. Hópurinn er í skærgulum búningum sem er hluti af öryggistækjunum. Einn var í rauðu fyrsta daginn og að sögn þeirra sem fylgja í bílunum var það hann sem síst sást. Framúrakstur er það sem þeim finnst hættulegast á þjóðvegunum.

„Það var einu sinni eða tvisvar sem við urðum hræddir, í bæði skiptin var um framúrakstur að ræða. Hann er það langhættulegasta. Að ferðast svona fær mann líka til að hugsa um hvernig maður hegðar sér sjálfur þegar maður sest undir stýri.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.