Hjartaopnandi hreint kakó spilar aðalhlutverkið

„Ég vil ganga svo langt að segja að þetta sé sannkölluð gjöf fyrir líkama, hug og sál. Og galdrar gerast alls staðar, bara ef við erum opin fyrir því,“ segir Kamilla Ingibergsdóttir, en hún stendur fyrir svokallaðri kakóathöfn á kærleiksdögum á Breiðdalsvík á morgun og í Herðubreið á Seyðisfirði á laugardaginn.


„Kakóathöfn er endurnærandi blanda af djúpslökun, hugleiðslu, öndun og tónheilun, þar sem hjartaopnandi hreint kakó spilar stórt hlutverk. Þetta er fullkomin leið til að núllstilla sig og hlaða batteríin fyrir sumarið,“ segir Kamilla.

Kamilla segir að kakóið sem drukkið verður komi frá regnskógum Gvatemala og sé sannkölluð ofurfæða. „Hreint kakó inniheldur mesta magn magnesíum og andoxunarefna nokkurrar plöntu, er mjög góður náttúrulegur orkugjafi og inniheldur phenylethylamine (PEA), efni sem við framleiðum þegar við verðum ástfangin. Kakó ýtir undir framleiðslu á gleðiboðefninu sérótónín og lækkar streituhormónið kortisól og er því dásamlegur hjálpari við hvers konar slökun og hugleiðslu.

Þessi ofurfæða hjálpar okkur að slaka á í líkamanum og finna fyrir ró sem við eigum stundum til með að týna í amstri hversdagsins. Þegar við bætum síðan við hugleiðslu, öndun og tónslökun með söngskálum og gongi er hægt að aftengja sig umheiminum í dásamlegu innra ferðalagi.“

Eina skilyrðið er að þykja vænt um sjálfan sig
Kamilla segir enga þörf fyrir reynslu af hugleiðslu eða jóga til að mæta. „Eina skilyrðið er að þykja vænt um sjálfan sig. Ég fæ til mín reynda jógaiðkendur jafn sem nýgræðinga og allir geta fengið eitthvað út úr því að fara aðeins út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt.

Ég býð alla hjartanlega velkomna, bæði reynslubolta í hugleiðslu og jóga og þau sem eru hreinlega forvitin og halda kannski að þau séu ekki týpur til að hugleiða eða gera eitthvað svona. Það hafa allir gott af því prófa eitthvað nýtt. Ég bið fólk bara að taka jógadýnu eða eitthvað til að sitja og liggja á með sér, sem og teppi og púða.“

Kakódansinn breytti lífi Kamillu
Kamilla hefur sjálf stundað hugleiðslu og jóga um árabil. „Fyrir tveimur árum var ég búin að vera á tónleikaferðalagi með hljómsveitinni Of Monsters and Men í rúmt ár, nánast sleitulaust, og var nokkurn veginn búin að týna sjálfri mér og gleðinni í leiðinni. Mér var boðið í kakódans og það mætti segja að það kvöld hafi líf mitt breyst. Ég bæði grét og hló þetta kvöld og náði að losa um gífurlegt magn af streitu og þreytu sem hafði setið í líkamanum og fann virkilega fyrir hjartaopnandi áhrifum kakósins og varð eiginlega ástfangin af því.“

Ekki leið á löngu þar til Kamilla fjárfesti í flugmiða til Gvatemala. „Raunar var það aðeins eftir þriðja kakóbollann sem ég smakkaði. Ég bara varð að vita meira um þessa dásamlegu plöntu en ég sökkvi mér ofan í allt sem mér finnst spennandi. Það sem ég bara vissi ekki þá var að þetta myndi algjörlega breyta lífi mínu. Ég hætti í tónlistarbransanum eftir tíu ár þar og hef síðan verið að byggja upp fyrirtæki í kringum dásemdir kakóplöntunnar en nú held ég ýmsa hugleiðsluviðburði, flyt inn kakó og skipulegg endurnærandi hópferðir til kakólandsins.“

Fyrri kakóathöfn Kamillu verður á Breiðdalsvík á morgun, fimmtudag. „Ég ákvað í kjölfarið að fara hringinn og þar sem ég er mikill aðdáandi Seyðisfjarðar fannst mér alveg nauðsyn að koma við þar og svo liggur leiðin til Akureyrar og Dalvíkur.“

Hér má nálgast miða á viðburðinn á Seyðisfirði.




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.