Hjalti Stefáns rokselur DVD disk um dráttarvélar: Ford er uppáhaldstegundin

hjalti_stefansson_tokataekni.jpg
Myndatökumaðurinn Hjalti Stefánsson er hæstánægður með viðtökurnar sem hann hefur fengið við DVD diskinum „Dráttarvélar á Íslandi: 1940-1980“. Þær séu langt umfram væntingar. Ford er sú tegund sem hann heldur mest upp á.

„Kunningi minn kom með þessa hugmynd fyrir nokkrum árum. Það var lítið að gera hjá mér síðasta vetur þannig ég ákvað að gera alvöru úr henni. Ég notaði veturinn í hugmyndavinnu og fór síðan vítt um landið í sumar og safnaði hugmyndum,“ segir Hjalti.

Diskarnir eru tveir með efni um eldri dráttarvélar, söfnun þeirra og endurgerðir. Meðal annars er rætt við Sigmar á Lindabæ, Þórodd Má Árnason frá Kistufelli og Viðar Bjarnason, Ásólfsskála, en þeir eru allir ákafir vélasafnarar. 

Þá er komið við á Sunnlenskum sveitadögum, sýningu Fornvélafélags Íslands á Hvolsvelli, Pardus-akstursleikninni á Hofsósi, Traktorstorfærunni á Flúðum og í Skógræktinni í Hallormsstað þar sem aldnir höfðingjar eru enn í fullri vinnu. 

„Mér finnst innslagið um vélarnar á Hallormsstað mjög skemmtilegt. Þar er Ferguson frá 1956 sem fluttur var inn nýr enn í fullri notkun. Safnið hans Sigmars í Lindabæ er líka glæsilegt. Hann er búinn að gera upp einar 20-30 vélar,“ segir Hjalti aðspurður um hvað standi upp úr að hans mati á disknum.

Diskurinn er framleiddur undir merkjum HS Tókatækni en Hjalti á það ásamt konu sinni, Heiði Ósk Helgadóttur sem vann með honum að disknum. Þau selja diskinn sjálf og segja viðtökurnar hafa farið fram úr þeirra björtustu vonum.

„Það eru farnir um 500 diskar um allt land. Jákvæðnin, eftirspurnin og áhuginn eru miklu meiri en ég átti von á,“ segir Hjalti sem sat við afgreiðsluborðið á Jólamarkaði Barra um síðustu helgi. „Við komum hingað með 35 diska og þeir eru löngu búnir!“

Svo mikill er áhuginn að þegar er byrjað að huga að næstu útgáfu. „Við erum byrjuð að safna hugmyndum fyrir nýja disk á næsta ári. Hann verður á svipuðum nótum, kannski með vélum heldur nær okkur í tíma.“

Sjálfur er Hjalti mikill áhugi um dráttarvélar og hefur dundað sér við að gera þær upp sjálfur. Aðspurður um uppáhaldstegund segir hann: „Það verður að vera blátt ... Ford ... ekkert annað – þótt ýmsar aðrar séu fallegar.!“

Verðið á pakkanum er 3.900 krónur. Hægt er að panta diskana á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 471 3898. Þeir eru einnig til sölu í Vaski Egilsstöðum, Pardusi á Hofsósi og VB landbúnaði, Vélaborg á Akureyri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.