„Hef aldrei farið sömu leið og hinir“

„Ég stefndi kannski aldrei beint að því að verða bakari. Ég fann mér ekki beint einhverja hillu í lífinu. Þetta bara þróaðist einhvern veginn svona.

Þetta byrjaði í raun allt þegar ég fór í starfsþjálfun í 10. bekk í bakaríinu í Fellabæ. Ég sýndi því áhuga á að taka starfsþjálfun þar því ég vissi að þá kæmist ég í bakkelsið og fengi kleinuhring eftir vakt. Ég átti að mæta í þrjú skipti og kynnast starfinu en ég mætti bara tvisvar, ég náði ekki að vakna á fyrstu vaktina “ sagði Ágúst Fannar Einþórsson, eða Gústi, þegar við spurðum hann að því hvernig þetta hafi allt saman byrjað í nýlegu forsíðuviðtali í Austurglugganum. Þar segir hann okkur frá ævintýrum sínum sem enduðu á því að hann opnaði eitt farsælasta bakarí landsins, Brauð & co. eftir hugmynd sem hann hafði þróað með sér í nokkur ár.

 

„Ég hef alla tíð fundið mér aðra leið, mína leið“

Gústi segir okkur frá því hvernig hann fann sig aldrei í menntakerfinu og grunnskólaganga hans í raun ekki verið góð. „Ég er ekki greindur með neinn brest. Ég veit það bara best sjálfur að ég get ekki lesið neitt eða einbeitt mér. Það hafði mikil áhrif á mig þegar ég var yngri en hefur líka mótað mig seinna meir. Ég hef alla tíð fundið mér aðra leið, mína leið, sem hentar mér best og hlutirnir gerast. Ég hef aldrei farið sömu leið og hinir.
Eftir að grunnskóla lá leið Gústa ekki strax í menntaskóla heldur réði hann sig í vinnur og prófaði Húsmæðraskólann á Hallormsstað. Það var svo að hann fékk samning hjá barakíinu í Fellabæ sem leiddi hann svo til Reykjavíkur, í Menntaskólann í Kópavogi, til að prófa að fylgja því eftir. Eftir að hafa misst tökin á því þar sem bóklega hliðin vafðist fyrir honum snéri Gústi sér að konditorinámi í Danmörku en það er köku- konfekt- og desertgerð.

Missti tækifæri með kokkalandsliðinu úr höndum sér

Við fórum yfir það hvernig Gústi tók ákvörðun að hætta að drekka eftir röð atvika. „Áður en ég vissi af var ég kominn í kokkalandsliðið á leiðinni út til Þýskalands að keppa á Ólympíuleikunum í matreiðslu. En, ég missti það tækifæri úr höndunum á mér. Þetta var ekki að fara að hjálpa mér neitt. Það eina sem drykkjan gerði var að skemma fyrir mér. Svo ég bara hætti.“

„Á innan við tveim vikum var ég kominn heim að opna bakarí“

Eftir að hafa flutt aftur til Danmerkur komst hann í rekstur á litlu kaffihúsi í einu af vinsælasta hverfi Kaupmannahafnar Á þessu litla kaffihúsi uppgötvaði Gústi að rekstur væri sú leið sem hann vildi fara. Þar fann hann sig vel og hafði margar góðar hugmyndir.
Eftir að hafa kynnst síðan bakstri á súrdeigi kviknaði áhugi Gústa á því að sameina þessa tvö hluti opna eitthvað sambærilegt litla kaffihúsinu hér á landi. „Á innan við tveim vikum var ég kominn heim og við komnir á fullt í að opna lífrænt bakarí.“

„Það bara sprakk allt!“

Eins og Gústi nefndi þá sáu þeir þó aldrei fyrir sér hversu stórt þetta yrði enda ætlaði Gústi ekki að flytja til Íslands þó að bakaríið opnaði. Velgengni Brauð & co. fór fram úr öllum vonum og þurfti að loka bakaríinu snemma fyrsta mánuðinn þar sem bakararnir höfðu ekki undan að baka því allt kláraðist úr hillunum. „Það bara sprakk allt! Í rauninni er þetta bara eitt af börnunum mínum, þetta er ég frá a-ö, svo það var í raun ekki hægt að labba burt frá því og fylgjast með úr fjarlægð. Ég sannfærði því fjölskylduna mína um að flytja heim með mér.“

Gaf uppskriftirnar sínar til Egilsstaða

Ég ætla ekki að opna Brauð & co. fyrir austan. Ég vil ekki fara í samkeppni við það sem nú þegar er á svæðinu. Mér þætti þó mjög áhugavert að fara í einhvers konar samstarfsfyrirkomulag. Eins og er sé ég ekki fyrir mér að flytja aftur heim þó mér þyki ótrúlega vænt um Austurland. Ég gaf samt uppskriftirnar mínar til Egilsstaða til gamla meistarans míns, Björgvins bakara, því ég vil endilega að Austfirðingar fái þetta góða brauð til sín. Mig langar samt að koma með eitthvað verkefni austur en ekki Brauð & co. í þeirri mynd sem það er.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.